Erlent

Bandaríkin loka landamærunum fyrir þeim sem hafa verið í Kína

Andri Eysteinsson skrifar
Heilbrigðisráðherra Bandaríkjanna kynnti aðgerðirnar í gær.
Heilbrigðisráðherra Bandaríkjanna kynnti aðgerðirnar í gær. EPA/Michael Reynolds

Erlendir ríkisborgarar sem komið hafa til Kína undanfarnar tvær vikur fá ekki inngöngu inn í Bandaríkin vegna Wuhan-veirunnar. Bandarískir ríkisborgarar sem dvalið hafa í nágrenni Wuhan munu þurfa að dvelja í sóttkví í tvær vikur áður en þeim er hleypt inn í landið. BBC greinir frá.

Heilbrigðisráðherra Bandaríkjanna, Alex Azar, sagði á blaðamannafundi í Washington í gær að lýst yrði yfir neyðarástandi í heilbrigðismálum vegna veirunnar.

„Bandarískir ríkisborgarar eru ekki í mikilli hættu á að smitast og með þessum aðgerðum vinnum við að því að halda ástandinu sem slíku,“ sagði Azar en sjö hafa greinst með Wuhan-veiruna í Bandaríkjunum en grunur leikur á um smit hjá 191 öðrum.

Kínversk yfirvöld greindu í gær frá því að fjöldi látinna hafi aukist úr 46 yfir í 259. 249 þeirra í Hubei héraðinu, þar sem Wuhan er að finna.

Fleiri ríki hafa gripið til ráðstafana vegna smithættu. Ástralir hafa ákveðið að enginn erlendur ríkisborgari, sem ferðast til landsins frá Kína, fái inngöngu. Líkt og í Bandaríkjunum munu ástralskir ríkisborgarar þurfa í sóttkví við komuna frá Kína. Þá er búist við samskonar aðgerðum í Bretlandi, Suður-Kóreu, Singapúr og í Nýja Sjálandi.

Lagt hefur verið bann við ferðalögum frá Mongólíu til Kína, Ísrael hefur bannað flugsamgöngur milli landanna. Tveimur kínverskum ríkisborgurum hefur verið komið fyrir í einangrun í Rússlandi eftir að hafa greinst með veiruna.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.