Erlent

Banda­rísk stjórn­völd segja al­menningi að ferðast ekki til Kína

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá flugvellinum í San Fransisco.
Frá flugvellinum í San Fransisco. vísir/Epa

Alls eru 213 manns látnir vegna Wuhan-veirunnar svokölluðu, nýrrar kórónaveiru sem á uppruna sinn í kínversku borginni Wuhan. Formlegt heiti veirunnar er 2019-nCoV.

Þá nálgast fjöldi staðfestra smita 10 þúsund en hann stendur nú í 9692 staðfestum smitum í Kína og 129 staðfestum smitum í 22 öðrum löndum eða svæði. Öll dauðsföllin eru í Kína, flest í Hubei-héraði þar sem Wuhan er höfuðborgin.  

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) lýsti yfir neyðarástandi á heimsvísu vegna veirunnar.

Þá hafa bandarísk stjórnvöld gefið út sams konar viðvörun fyrir ferðalög til Kína og er í gildi í landinu fyrir Írak og Afganistan. Er bandarískum ríkisborgurum sagt að ferðast ekki til Kína vegna veirunnar.

Í frétt Guardian segir að yfirlýsing WHO um neyðarástand á heimsvísu sé tilkomin vegna þess hversu hratt veiran hefur breiðst út. Þá hafa smitsjúkdómasérfræðingar ekki enn náð að greina alveg hversu lífshættuleg veiran er og smitandi.

WHO telur þó ekki þörf á því enn að takmarka ferðalög fólk og flutninga en fjöldi flugfélaga hefur engu að síður hætt flugferðum til meginlands Kína, þar á meðal British Airways, SAS og Lufthansa.

Þá tilkynnti ítalski forsætisráðherrann Giuseppe Conte að öllu flugi á milli Kína og Ítalíu yrði hætt eftir að fyrstu smitin voru staðfest í landinu hjá tveimur kínverskum ferðamönnum. Eru þessar aðgerðir ítalskra stjórnvalda harðari en önnur lönd hafa gripið til.

Enn hefur ekkert tilfelli Wuhan greinst hér á landi en Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, hefur sagt að gert sé ráð fyrir að veiran berist hingað til lands.

Undirbúningur er samkvæmt viðbragðsáætlunum sóttvarnalæknis og almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra.

Í því felst að leiðbeiningar og áætlanir frá hinum svokallaða SARS-faraldri frá 2002 verða uppfærðar og viðbragðsaðilar upplýstir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×