Innlent

Slysið breytti forgangsröðuninni

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Róbert Wessmann forstjóri Alvogen
Róbert Wessmann forstjóri Alvogen Vísir/Vilhelm
Nú er ár liðið frá því Róbert Wessman, forstjóri lyfjafyrirtækisins Alvogen, lenti í alvarlegu hjólreiðaslysi. Hann slasaðist illa og brotnuðu meðal annars tveir efstu hryggjaliðirnir.

Róbert man ekkert eftir slysinu. Hann lá meðvitundarlaus í götunni eftir að hafa hjólað á fjörutíu og sjö kílómetra hraða aftan á kyrrstæðan bíl. Hann lá í tólf daga á spítala eftir slysið og var rúmfastur í þrjá mánuði heima. Hann segir bataferlið hafa verið erfitt, lærdómsríkt og að forgangsröðunin hafi breyst eftir slysið.

Róbert stundaði á þessum tíma hjólreiðar af miklu kappi og gekk vel í keppnum hér heima og erlendis. Eins og flestir þekkja hafði hann einnig náð miklum árangri í viðskiptalífinu, en aðeins tuttugu og níu ára var hann ráðinn forstjóri lyfjafyrirtækisins Delta sem síðar varð Actavis. Þessi kappsami maður varð að vera rúmliggjandi í rúma hundrað daga vegna slyssins.

„Ég gerði ekki ráð fyrir því að lenda í slysi,“ segir hann og bætir því við að gildismat hans hafi breyst í kjölfarið.

Róbert nálgaðist endurhæfinguna eins og verkefni sem hann leysti með góðri hjálp eiginkonu sinnar. Hann er þakklátur mörgum fyrir hjálpina; fjölskyldu, vinum og samstarfsmönnum sem tóku á sig aukna ábyrgð í hans fjarveru. Hann er nú kominn aftur á fulla ferð og segist ekki hugsa mikið um að hlutirnir hefðu getað endað öðruvísi.

„En ég held að bæði ég sjálfur og allir læknar sem önnuðust mig séu sammála um að ég hafi verið einstaklega heppinn.“

Róbert var illa farinn eftir slysið.
Man lítið eftir slysinu

Róbert man lítið eftir slysinu og hefur notað Garmin-úr og önnur tæki sem hann var með á hjólinu til að kortleggja ferðir sínar fyrir slysið.

„Ég man fyrst eftir mér þegar ég er í sjúkrabílnum. Ég missti meðvitund í einhvern tíma. Ég rankaði víst við mér rétt áður en sjúkrabíllinn kom en man ekkert eftir því. En þeir sem komu að mér pössuðu upp á að ég hreyfði mig ekki. Ég var með óstöðugt hryggbrot. Það þarf mjög lítið til að mænan skaðist við þannig aðstæður og að maður lamist. Ég var því heppinn að menn pössuðu vel upp á það. Svo sá ég á Garmin-tækinu, að það tók um klukkustund að koma mér fyrir í sjúkrabílnum. Þeir hafa séð hvað ég var alvarlega slasaður og tóku sér greinilega góðan tíma. Ég hef ekki hitt þá sem komu mér til aðstoðar eftir slysið en vil þakka þeim fyrir að hafa passað vel upp á mig.“ 

Róbert ári áður en hann slasaðist.
Góður tími þrátt fyrir allt

„Enginn óskar þess að lenda í svona alvarlegu slysi og vera rúmfastur í þrjá mánuði. En þrátt fyrir það var þetta að mörgu leyti góður tími. Ég var til dæmis alltaf heima þegar börnin mín komu úr skólanum sem ég hef aldrei áður haft tækifæri til. Vegna vinnu minnar hef ég verið mikið á ferðalögum erlendis og gat því eytt meiri tíma með eiginkonu minni og börnum. Þó að þetta hafi verið erfiður tími þá var hann samt gefandi og jákvæður,“ segir Róbert Wessman um tímann sem hann var rúmfastur eftir slysið.

Róbert er þakklátur fyrir alla hjálpina sem hann fékk frá fjölskyldu og vinum í kjölfar slyssins og þakkar þar sérstaklega eiginkonu sinni Sigríði Ýr Jensdóttur lækni. Hún tók sér þriggja mánaða frí frá vinnu til að hugsa um Róbert.

„Hjálpin hennar var algjörlega ómetanleg og ég hefði átt erfitt með að komast í gegnum þetta án hennar. Dagarnir eru lengi að líða þegar maður er rúmliggjandi og með mikla verki. Mikilvægast fannst mér að vera jákvæður og trúa því að þetta færi allt vel að lokum, án þess þó að vita nákvæmlega hvar þetta myndi enda.“

Róbert rifjar upp einn af löngu dögunum þegar hann var rúmliggjandi. „Ég taldi dagana og þessir þrír mánuðir voru eins og heil eilífð. Ég man enn þegar eiginkonan kom inn til mín og sagði mér að nú væru fimmtán dagar liðnir af rúmlegunni. Ég hélt að þeir væru sextán og þarna örlaði sennilega á tár á kinn yfir því að hafa tapað heilum degi á þessu langa þriggja mánaða ferðalagi. 

Róbert var fljótt farinn að senda tölvupóst á samstarfsmenn, en hann fékk búnað til að halda spjaldtölvu fyrir ofan rúmið sitt og gat skrifað þar sem hann lá á bakinu.

„Ég var í daglegu sambandi við nokkra lykilstarfsmenn fljótlega eftir að ég kom heim af Landspítalanum enda mikið að gerast hjá Alvogen á þessum tíma. Flestir tölvupóstarnir sem ég sendi voru mjög stuttir og laggóðir en áttu það flestir sameiginlegt að vera illskiljanlegir vegna stafsetningarvillna. Það þurfti því oft fleiri en einn til að ráða í táknmálið.“

Róbert er nú byrjaður að vinna aftur eftir slysið.Vísir/Vilhelm
Varð ungur forstjóri

Róbert var aðeins tuttugu og níu ára þegar hann var ráðinn forstjóri lyfjafyrirtækisins Delta, sem síðar varð Actavis, eftir að hafa starfað hjá Samskipum frá því að hann útskrifaðist úr háskóla.

Á aðeins sjö árum var Actavis komið í hóp fjögurra stærstu samheitalyfjafyrirtækja heims. Fyrirtækið óx hratt en skapaði líka mikil verðmæti fyrir íslenskt atvinnulíf. Það voru um 100 starfsmenn hjá fyrirtækinu árið 1999 en árið 2007 voru þeir 11.000 talsins í fjörutíu löndum og fyrirtækið skilaði líka miklum arði til íslenskra fjárfesta og lífeyrissjóða.“ 

Vill endurtaka leikinn

Róbert varð forstjóri Alvogen árið 2009 eftir að hafa leitt uppbyggingu Actavis. Hann segir það hafa blundað í sér að byggja upp leiðandi alþjóðlegt lyfjafyrirtæki á nýjan leik.

„Uppbygging Actavis var draumi líkust en ég var meðvitaður um að það yrði mun stærri áskorun að endurtaka leikinn. Umhverfið var mikið breytt, mikil samþjöppun hafði átt sér stað og samkeppnin harðnað. Við settum strax stefnuna á að koma Alvogen í fremstu röð og það hefur gengið mjög vel. Fyrirtækið var aðeins starfandi í Bandaríkjunum þegar ég kom að því en er í dag í 34 löndum, með um tvö þúsund starfsmenn og við höfum fimmtánfaldað tekjur fyrirtækisins á aðeins fimm árum. Líkt og við uppbyggingu Actavis, þá munu Íslendingar spila stórt hlutverk í uppbyggingu fyrirtækisins.“ 

Á næsta ári lýkur framkvæmdum við Hátæknisetur Alvogen sem rís innan Vísindagarða Háskóla Íslands. Róbert vonast til að starfsemi Hátæknisetursins munu skila um 65 milljörðum í árstekjur þegar lyf fyrirtækisins koma á markað frá árinu 2018. Framkvæmdin mun vera ein sú stærsta frá efnahagshruni og alls munu 400 ársverk skapast á framkvæmdatímanum.

„Við horfum sérstaklega til þess að ráða háskólamenntaða Íslendinga þó að lykilstjórnunarstöður verði mannaðar útlendingum. Við stefnum að því að skapa um 200 ný framtíðarstörf hér á landi á næstu árum, til viðbótar við þá 45 starfsmenn sem nú þegar hafa verið ráðnir til Alvogen á Íslandi.“

Hér er Róbert í nóvember, fjórum mánuðum eftir slysið.Mynd/HAG
Langaði að gera þetta á Íslandi

„Valið stóð á milli Íslands og Möltu þegar við ákváðum að byggja upp þróunarsetur fyrir líftæknilyf. Umhverfið á Möltu er mjög hagstætt og það hefði verið fjárhagslega hagkvæmara til skamms tíma að byggja upp þessa starfsemi þar. Lega Íslands mitt á milli stærstu markaðssvæða okkar í Bandaríkjunum og Evrópu, auk öflugs menntakerfis hér á landi eru hins vegar mjög jákvæðir kostir við uppbyggingu hér á landi. Við ákváðum að horfa frekar til langs tíma við okkar ákvörðun og létum neikvæða umræðu um rekstrarskilyrði alþjóðlegra fyrirtækja hér á landi ekki hafa áhrif á okkur. Á meðan mörg fyrirtæki hafa ákveðið að draga úr uppbyggingu sinni hér á landi, eða jafnvel flytja starfsemi úr landi, sjáum við tækifæri. Ég trúi því að Ísland geti verið leiðandi í þeirri þróun sem er að eiga sér stað innan líftæknigeirans um þessar mundir.“

Kominn á fulla ferð

Róbert byrjaði að vinna fullan vinnudag fyrir síðustu áramót en fram að þeim tíma hafði hann að miklu leyti unnið að heiman. Hann segist þó enn finna fyrir verkjum, ógleði og svima vegna slyssins sem mun sennilega taka einhvern tíma að losna alveg við.

„Í dag get ég þó horft meira á kómísku hliðarnar á þessari lífsreynslu. Það er mikið hlegið á mínu heimili þegar ég fékk fyrstu máltíðina á Landspítalanum nokkrum dögum eftir slysið. Þá hafði ég verið með næringu í æð í nokkra daga og fyrsti maturinn sem ég fékk voru stappaðar kjötbollur. Það að fá einhvern mat var svo gott að ég bað hjúkrunarkonuna um uppskriftina. Við höfum þó ekki enn eldað kjötbollurnar þó að ég hafi fengið uppskriftina,“ segir Róbert brosandi. 

„Ég er nokkuð jafnvígur á ensku og íslensku enda hef ég verið í miklum samskiptum utan Íslands síðustu fimmtán ár. Það var því skrítið að upplifa það að á fyrsta starfsmannafundi eftir slysið með stórum hópi af lykilstjórnendum eftir að ég kom til vinnu að ég mundi ekki annað hvert orð í ensku. Það er víst hluti af miklum höfuðáverkum að svona lagað gerist.“

Hér er Róbert tæpum tveimur mánuðum eftir slysið.
Byrjaður að æfa þótt hjólreiðar séu ekki á dagskránni

Róbert hefur alla tíð stundað líkamsrækt en hann hefur breytt æfingaáætluninni.

„Ég er hjá sjúkraþjálfara í endurhæfingu í dag auk þess sem hann stundar reglulega núna rope-jóga. Rope-jóga hefur hjálpað mér mikið við að losna við verki og auka liðleika. Ég syndi líka í dag töluvert, mæti í spinning og stunda létta líkamsrækt og er duglegri við teygjur án áður. 

„Í dag er ég einfaldlega ekki tilbúinn til þess að hjóla. Auk þess var slysið talsvert áfall fyrir fjölskylduna og hjólreiðar eru því ekki á dagskrá á næstunni. Kannski breytist þetta með tímanum hver veit. Ég sakna þess samt töluvert að vera hættur að hjóla enda eru hjólreiðar frábær íþrótt og félagsskapurinn mjög góður. Ég eignaðist mikið af góðum vinum síðustu ár í hjólaíþróttinni og sá vinskapur stendur upp úr þegar ég horfi til baka.“

Hvaða lærdóm finnst hefur þú hafa dregið af lífsreynslu þinni eftir slysið?

„Að takast á við svona slys er álíka erfitt andlega og líkamlega. Það sem ég lærði af þessu ævintýri var að vera jákvæður og trúa því að ég kæmist í gegnum þetta. Ég veit að það eru ekki allir jafn heppnir og ég var. Í dag ber ég meiri skilning á því hvað einstaklingar sem lenda í enn alvarlegri slysum en ég ganga í gegnum. Fólk sem lamast á lífsleiðinni eru hetjur í mínum huga, það er hreinlega óskiljanlegt hvernig hægt er að takast á við slíkt áfall. 

Ég upplifði líka hvað aðstoð, hjálpsemi og væntumþykja skipta miklu máli þegar mikið bjátar á. Ég upplifði hvað margir voru tilbúnir til að hjálpa mér og leggja á sig til að mér liði betur. Bæði ættingjar, vinir, samstarfsmenn og fólk sem ég þekkti ekkert fyrir slysið. Ég er ekki viss um að allir þeir sem hjálpuðu mér viti hvað aðstoð þeirra var mér mikils virði.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×