Innlent

Innovit kyndir undir áhuga ungs fólks á sjávariðnaði

BBI skrifar
Kristján Freyr Kristjánsson, framkvæmdastjóri Innovit.
Kristján Freyr Kristjánsson, framkvæmdastjóri Innovit. Mynd/Valgarður
Innovit fékk nýverið styrk frá Norrænu nýsköpunarmiðstöðinni til að vera umsjónaraðili verkefnis sem nefnist Nordic Innovation Marine Marketing Project (Norrænt nýsköpunarverkefni í markaðssetningu sjávarútvegs). Innovit mun fá til liðs við sig samstarfsaðila af öllum Norðurlöndunum.

Verkefnið snýst um að fara með þrjá nemendur frá hverju Norðurlandanna til Færeyja nú í haust þar sem þeir leysa ákveðin vandamál tengd sjávarútvegi eða fiskeldi. Ferlið frá A-Ö verður tekið upp á myndband og myndefnið notað til markaðssetningar á sjávartúvegi og sýnt víðsvegar um Evrópu.

Kristján Freyr Kristjánsson, framkvæmdastjóri Innovit, segir verkefnið eiga að vekja áhuga ungs fólks á sjávariðnaði í heild sinni. „Sjávarútvegurinn snýst ekki bara um það að veiða fiskinn og verka hann. Það er rosaleg starfsemi í kringum þetta allt," segir hann og vonast til að verkefnið opni augu ungs fólks fyrir greininni.

Það er ekki að ástæðulausu að Íslendingar eru valdir til forystu í verkefni af þessum toga. Íslendingar eru ein fremsta sjávarútvegsþjóð Evrópu og þótt víðar væri leitað. Íslenskur sjávarútvegur er háþróaður og víða um heim er litið til Íslendinga við lausnir á vandamálum tengdum sjávarútvegi.

Innovit nýsköpunar- og frumkvöðlasetur hefur haldið utan um og tekið þátt í fjölmörgum alþjóðlegum verkefnum. Verkefnið sem hér um ræðir er ákveðin viðurkenning á aðferðafræði sem Innovit hefur unnin eftir þar sem erlendir aðilar vilja nú fá Innovit til að beita sínum aðferðum til að finna lausnir á vandamálum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×