Innlent

Rúmlega 3000 heimili hafa sótt um greiðslufrest hjá fjármálafyrirtækjum

Birgir Olgeirsson skrifar

Um 3.300 heimili og rúmlega eitt þúsund fyrirtæki hafa fengið greiðslufrest hjá bönkum og sparisjóðum vegna kórónuveirufaraldursins. Formaður Samtaka fjármálafyrirtækja segir mikið kapp lagt á að hjálpa fyrirtækjum í gegnum erfiðleika.

Í síðasta mánuði gerðu lánveitendur með sér samkomulag um tímabundna greiðslufresti á lánum til fyrirtækja. Á samkomulagið að hraða fyrirtækjum í skjól. Það þýðir að ef ein lánastofnum telur fyrirtæki standast kröfur um greiðslufrest þá geta aðrar lánastofnanir ekki sótt á það fyrirtæki um greiðslur.

Síðan þá hafa 1.440 fyrirtæki sótt um greiðslufrest. 1.131 umsókn hefur þegar verið afgreidd. Af afgreiddum umsóknum hafa 92 prósent verið samþykktar, eða um 1.035. 8% töldust ekki uppfylla skilyrði samkomulagsins og eru í öðru ferli hjá sínum lánveitendum.

„Fyrirfram hefði maður haldið að fleiri fyrirtæki myndu jafnvel sækja um. En það er samt erfitt að segja og 1.440 fyrirtæki er mjög mikið,“ segir Katrín Júlíusdóttir, formaður Samtaka fjármálafyrirtækja.

Langflest fyrirtækjanna eru örfyrirtæki með tíu starfsmenn eða lítil fyrirtæki með færri en 50 starfsmenn.

„En það eru líka lítil og meðalstór fyrirtæki. Þetta er því þverskurður af fyrirtækjum sem eru að sækja um greiðslufrest og fá hann.“

Tæplega 4.000 heimili hafa sótt um greiðslufrest hjá bönkum og sparisjóðum. Þar af 3.300 fengið greiðslufrest. Sex hundruð umsóknir eru í vinnslu.

„Þar eru svona almennt viðmiðin að þú sért ekki í löngum vanskilum og að þú hafi orðið fyrir tekjuskerðingu vegna Covid-19. Það hafa 3.300 heimili fengið greiðslufrest á sínum lánum.“

Heimili og fyrirtæki geta sótt um að fresta greiðslum í allt að sex mánuði hjá aðalviðskiptabanka sínum eða sparisjóði sem leggur mat á hvort viðmið séu uppfyllt.

Fyrirtæki þurfa að vera í heilbrigðum rekstri, mega ekki hafa verið í vanskilum í 60 daga eða lengur í lok febrúar síðastliðinn og hafa nýtt sér viðeigandi úrræði stjórnvalda vegna heimsfaraldursins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×