Sport

Fyrrum NFL-leikmaður er nú læknir í fremstu röð í baráttunni við COVID-19

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Myron Rolle þegar hann var leikmaður Tennessee Titans liðsins í NFL-deildinni.
Myron Rolle þegar hann var leikmaður Tennessee Titans liðsins í NFL-deildinni. Getty/Grant Halverson

Myron Rolle, er lærður taugaskurðlæknir, og er nú á sínu þriðja starfsári á Massachusetts General Hospital í Boston borg. Staðan er hins vegar sú núna að flestir eru komnir með COVID-19 sjúkdóminn á verkefnalistann sinn.

„Taugaskurðlækningadeildinni okkar hefur verið breytt í deild fulla af COVID-19 sjúklingum. Það er mikið að gera hjá okkur öllum,“ sagði Myron Rolle í viðtali við ESPN.

Leikmenn NFL-deildarinnar eru ekki þekktir fyrir að fórna sæti í deildinni fyrir læknisnám og því hefur saga Myron Rolle vakið talsverða athygli.

Myron Rolle var stjörnuleikmaður hjá Florida State háskólanum og sló í gegn sem öryggismaður (safety) í vörninni. Rolle dreymdi um að vera valinn í fyrstu umferð nýliðavalsins i NFL-deildinni en hann átti sér líka annan draum.

Rolle sleppti lokatímabilinu hjá Florida State og fór í staðinn á Rhodes skólastyrk við Oxford háskólann þar sem hann eyddi öllu lokaárinu í háskóla.

NFL-liðið Tennessee Titans valdi hann samt í sjöttu umferð nýliðavalsins árið 2010 og hann spilaði síðan í þrjú tímabil í NFL-deildinni, fyrst frá 2010 til 2011 með Tennessee Titans og svo með Pittsburgh Steelers árið 2012.

Hann tók síðan þá ákvörðun að leggja skóna á hilluna árið 2013, þá 27 ára gamall og snéri sér í staðinn að læknisnáminu.

„Fótboltinn er samt enn í blóðinu. Ég vakna enn á morgnanna og hugsa mér að skurðstofan sé eins og fótboltaleikur. Þar er sýningartími og maður þarf að standa sig. Ég þarf að gera það sem fólk þarfnast af mér því fólk treystir á okkur núna,“ sagði Myron Rolle.

„Þetta er tíminn fyrir okkur að hjálpa veiku fólki. Það hvetur mig áfram til að halda áfram að keyra mig áfram á hverjum degi,“ sagði Myron Rolle.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×