Innlent

Fyrsti ráðherrann kominn í sóttkví

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Guðmundur Ingi Guðbrandsson ætlar að hringja í einn vin á dag meðan á fjórtán daga sóttkví stendur. Hér er hann á þingfundi á föstudaginn.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson ætlar að hringja í einn vin á dag meðan á fjórtán daga sóttkví stendur. Hér er hann á þingfundi á föstudaginn. Vísir/Vilhelm

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra er kominn í sóttkví. Þessu greinir ráðherrann frá á Facebook en hann er sá fyrsti úr ráðherraliðinu til að fara í sóttkví. Áður höfðu þingmenn á borð við Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur og Smára McCarthy greint frá því að þau væru að vinna að heiman en Smári er greindur með veiruna.

Guðmundur Ingi segir að samstarfskona hans í ráðuneytinu hafi greinst með veiruna. Smitrakningarteymið hafi haft samband við sig í gær en sjálfur sé hann einkennalaus og líði vel.

„Hugur manns þessa dagana er auðvitað hjá þeim sem eru veik og hjá öllu heilbrigðisstarfsfólkinu okkar, kennurum, almannavörnum og öðrum sem halda grunnþjónustunni gangandi. Ég tek hatt minn ofan fyrir ykkur öllum!“

Nú sé bara að aðlaga sig nýjum aðstæðum.

„Ég fór t.d. ekki á ríkisstjórnarfund í gær og við tekur að vinna að heiman, sem er lítið mál með fjarfundi og tölvu. Elsku vinir, farið vel með ykkur og hugsið vel hvert um annað. Ég ætla að hringja í a.m.k. einn vin á dag til að heyra í þeim hljóðið. Við komumst í gegnum þetta saman. Rafrænt knús á línuna.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×