Heimir Már Pétursson fréttmaður fær umhverfisráðherra og Smára McCarthy þingmann Pírata til sín í Víglínuna til að ræða þessi mál. En Smári hefur sagt að frumvarpið snúist allt of mikið um hömlur, boð og bönn sem muni gera fólki erfitt fyrir um að njóta hinnar fjölbreyttu náttúru sem er að finna á hálendinu.

Frumvarpið um hálendisþjóðgarð snertir á auðlindanýtingu en samkvæmt því er til að mynda reiknað með að Alþingi ljúki gerð rammaáætlunar III varðandi vernd og nýtingu virkjanakosta. Í frumvarpinu er fjallað um áframhaldandi nýtingu á afréttum og hvernig staðið skuli að ferðum og móttöku ferðamanna, svo dæmi séu tekin.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra verður einnig gestur Víglínunnar í dag. En hann hefur nýlega óskað eftir því við Evrópusambandið að samningur sem tók gildi 2018 um inn- og útflutning landbúnaðarvara milli Íslands og ríkja Evrópusambandsins verði endurskoðaður vegna breyttra forsendna. Reynslan sýnir að íslenskir matvælaframleiðendur flytja lítið út en innflytjendur á Íslandi flytja mikið inn af landbúnaðarvörum og langt umfram tollfrjálsa kvóta.

Alþingi hefur einnig nýlega samþykkt frumvarp utanríkisráðherra um breytingar á lögum um skipan sendiherra sem meðal annars fela í sér að stöður þeirra verða auglýstar eins og önnur störf í utanríkisráðuneytinu og enginn verður lengur skipaður sendiherra ævinlangt. Þá skrifaði utanríkisráðherra nýlega undir nýjan loftferðasamning við Bretland sem tryggir flug milli landanna til framtíðar.
Víglínan er í opinni dagskrá á Stöð 2 og Vísi klukkan 17:40. Þátturinn verður einnig birtur á sjónvarpshluta Vísis fljótlega að lokinni útsendingu.