Liverpool niðurlægði Palace

Anton Ingi Leifsson skrifar
Salah og Firmino fagna einu af sjö mörkum ensku meistaranna í kvöld.
Salah og Firmino fagna einu af sjö mörkum ensku meistaranna í kvöld. Andrew Powell/Getty

Liverpool er komið með sex stiga forskot á toppi ensku úrvalsdeildarinnar, tímabundið að minnsta kosti, eftir 7-0 stórsigur á Crystal Palace á útivelli í dag.

Það voru ekki liðnar þrjár mínútur er Takumi Minamino skoraði fyrsta markið. Eftir laglegan undirbúning Sadio Mane skoraði Japaninn sitt fyrsta úrvalsdeildarmark.

Heimamenn í Palace fengu nokkrar álitlegar sóknir sem þeim tókst ekki að nýta sér og Liverpool refsaði þeim fyrir það með því að tvöfalda forystuna á 36. mínútu. Markið gerði Sadio Mane.

Roberto Firmino skoraði þriðja markið á 44. mínútu. Markið var einkar fallegt. Andy Robertson átti góða sendingu á Firmino sem tók vel við boltanum og kláraði færið vel. 3-0 í hálfleik.

Meistararnir voru ekki hættir. Fyrirliðinn Jordan Henderson skoraði fjórða markið á 52. mínútu með skoti fyrir utan teig og Firmino gerði annað mark sitt og þriðja mark Brassans í vikunni á 68. mínútu.

Sjötta og alls ekki síðasta markið gerði varamaðurinn Mohamed Salah tæpum tíu mínútum fyrir leikslok. Salah var ekki hættur því hann skoraði frábært mark sex mínútum fyrir leikslok og lokatölur 7-0.

Liverpool er því með sex stiga forskot á toppi deildarinnar, að minnsta kosti þangað til síðar í dag, en Palace er í tólfta sæti deildarinnar með átján stig.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.