Lífið

Salka komin heim eftir að hafa verið týnd í tvö ár

Sylvía Hall skrifar
Salka lét fara vel um sig í gær eftir að hún kom heim eftir rúmlega tveggja ára óvissu.
Salka lét fara vel um sig í gær eftir að hún kom heim eftir rúmlega tveggja ára óvissu.

Það má segja að hálfgert jólakraftaverk hafi átt sér stað þegar Hólmfríður Eva Björnsdóttir fékk óvænt skilaboð á fimmtudagskvöld. Þar var hún spurð hvort hún kannaðist við kisu sem hafði fundist, og reyndist það vera Salka, sem Hólmfríður hafði saknað í tvö og hálft ár.

Hólmfríður hafði tekið Sölku að sér eftir að henni var bjargað inn úr kuldanum árið 2015. Hún segir Sölku hafa verið sína bestu vinkonu, en þurfti því miður að láta hana frá sér vegna flutninga árið 2018. Nokkrum dögum seinna slapp Salka út og ekkert hafði spurst til hennar síðan.

„Við leituðum lengi og vorum með fellibúr en ekkert gekk. Við vorum búin að telja okkur trú um að hún væri dáin.“

Salka fannst á fimmtudag í Hvassaleitinu í Reykjavík þar sem hún hafði týnst í júní 2018. Í samtali við Vísi segir Hólmfríður að gleðin sé í raun tvöföld núna, því hún keypti nýlega íbúð þar sem hún má vera með Sölku. Salka er því komin á nýtt heimili, til sinna fyrri eigenda og braggast vel að sögn Hólmfríðar.

„Malar hástöfum og sleikir okkur í framan“ 

Salka er öll að braggast.

Hún segir Sölku greinilega hafa munað eftir sér, en þegar Hólmfríður kom að sækja hana í gærkvöldi malaði hún þegar henni var klappað og þáði mat eftir að hafa ekkert viljað borða fyrst. Nú sé hún farin að líkjast sjálfri sér aftur.

„Hún malar hástöfum og sleikir okkur í framan og hendurnar, og elskar að fá klapp á magann,“ segir Hólmfríður.

Með Sölku á heimilinu verða einnig tveir hundar sem Hólmfríður á. Aðspurð segist hún ekki hafa miklar áhyggjur af því, enda hafi Salka nú þegar hitt þá og það hafi ekki verið neitt vandamál.

„Þau eru búin að hitta Sölku og hún kippir sér ekkert upp við það þegar þau koma nálægt og þefa af henni og svona.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.