Innlent

Formaður félags fanga ætlar á þing

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Guðmundur Ingi Þóroddsson er formaður Afstöðu, félags fanga.
Guðmundur Ingi Þóroddsson er formaður Afstöðu, félags fanga.

Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu - félags fanga, hefur ákveðið að gefa kost á sér til framboðs fyrir Samfylkinguna í næstu Alþingiskosningum. Hann greinir frá þessu á Facebook-síðu sinni.

„Undanfarin ár hef ég helgað Afstöðu krafta mína og unnið að málefnum fanga; aðstandenda þeirra og barna. Mannréttinda-, mennta- og velferðarmál eru mér hugleikin, málefni frelsissviptra og þeirra sem þeim tengjast; málefni fatlaðra og öryrkja og allra þeirra sem þarfnast sérstakrar aðstoðar, sem byggi á mannúð og virðingu,“ segir Guðmundur Ingi.

Hann segist hafa sagt í viðtali við Fréttablaðið fyrir nokkru að ef þau mál sem á honum brenni fengju ekki meira vægi hjá stjórnvöldum myndi hann íhuga að bjóða sig fram til Alþingis.

„Skemmst er frá því að segja að ýmsir höfðu við mig samband í kjölfarið, með hvatningu um að láta af því verða.“

Uppstilling Samfylkingarinnar í Reykjavík stendur nú yfir. Í næstu viku geta félagsmenn sagt álit sitt á hverja þeir telji eiga að skipa forystu flokksins í Reykjavík.

„Ég set stefnuna á eitt af efstu sætunum í næstu kosningum, sem fram fara á næstu ári. Ég óska þess nú að þau ykkar sem vilja styðja mig í því forvali Samfylkingarinnar sem stendur yfir, skrái sig í flokkinn í dag og um leið í Samfylkingarfélagið í Reykjavík, merki við mig á lista hans í næstu viku og styðji Samfylkinguna í næstu kosningum.“


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×