Innlent

Blaðamannafundur í dag með ráðherrum og þríeykinu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ríkisstjórnin kynnti aðgerðir vegna slökunar á samkomubanni á Íslandi í Safnahúsinu fyrr á árinu. Nú stefnir í hertar aðgerðir.
Ríkisstjórnin kynnti aðgerðir vegna slökunar á samkomubanni á Íslandi í Safnahúsinu fyrr á árinu. Nú stefnir í hertar aðgerðir. Vísir/Vilhelm

Ríkisstjórnin fundar nú í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu þar sem minnisblað með tillögum Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis,  er á dagskrá. Fundurinn verður klukkan 13.

Í framhaldinu verður haldinn blaðamannafundur með ráðherrum úr ríkisstjórninni og þríeykinu. Þar má reikna með að hertar aðgerðir á landinu verði kynntar. 

Tímasetning blaðamannafundarins liggur ekki fyrir og fer að einhverju leyti eftir því hversu langur fundur ríkisstjórnarinnar verður. Vísir verður með beina útsendingu frá fundinum sem fyrr.

Í vaktinni hér að neðan verður fylgst með gangi mála varðandi Covid-19 og hertar aðgerðir á Íslandi í allan dag.

Óvíst hvenær aðgerðir taka gildi

Fundur ríkisstjórnarinnar í morgun hófst um níuleytið en alla jafna hefst fundurinn klukkan 9:30. 

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði í gær að hann hygðist leggja til hertari aðgerðir innanlands til þess sporna gegn frekari útbreiðslu veirunnar. Hann sagði mikilvægt að hertar aðgerðir tækju gildi sem fyrst.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra sagði fyrr í vikunni að hún ætti von á að ný reglugerð tæki gildi þriðjudaginn 3. nóvember. Þá rennur út gildistími hertra reglna á höfuðborgarsvæðinu. Ráðherra hefur sagst að mestu hafa fylgt tillögum sóttvarnalæknis hingað til og þannig gefið í skyn að sú verði raunin áfram.

Herða tökin á landamærum

Sóttvarnalæknir hefur meðal annars talað fyrir breytingum á landamærum. Að krefjast þess að þeir sem koma frá ákveðnum löndum fari í tvöfalda skimun og eigi ekki kost á tveggja vikna sóttkví án prófs.

„Ég hef að jafnaði fallist á tillögur sóttvarnalæknis og myndi gera í því tilviki líka. En það þarf að skoða þetta með lögmætiskröfuna, þ.e. þær tillögur þurfa að byggja á gildandi lögum,“ sagði Svandís á miðvikudag.

Ríkisstjórnin fundar alla jafna á þriðjudögum og föstudögum þannig að fundurinn í dag er hefðbundinn þó hann hafi hafist fyrr en venjulega. Reikna má með að drjúgur tími fundarins fari í umræðu um hertar aðgerðir. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×