Innlent

Hefur á­hyggjur af nýjum þungunar­rofs­lögum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra. Vísir/Vilhelm

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur lýst yfir áhyggjum af nýjum þungunarrofslögum í Póllandi, sem takmarka mjög rétt kvenna þar í landi til þungunarrofs. Katrín segir um grundvallarréttindi kvenna að ræða.

Með nýju lögunum verður þungunarrof nú bannað í nær öllum tilfellum í Póllandi og einungis heimilt í tilfelli nauðgunar, sifjaspells eða þegar líf eða heilsa móður er í hættu. Lögunum hefur verið mótmælt harðlega í Póllandi og þá komu nokkur hundruð manns saman til mótmæla við sendiráð landsins í Þórunnartúni í gærkvöldi.

Fréttastofa ræddi við Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra eftir ríkisstjórnarfund í morgun. Innt eftir því hvort hún hygðist beita sér sérstaklega í málinu benti hún á yfirlýsingu sína í gær.

„Ég lýsti yfir sérstaklega áhyggjum af nýjum þungunarrofslögum í Póllandi þar sem er mjög þrengt að rétti kvenna til þungunarrofs,“ sagði Katrín.

„Þetta er auðvitað ein af grundvallarréttindunum sem hefur verið barist fyrir, ekki síst á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, og Ísland hefur auðvitað verið í forystuhlutverki á sviði jafnréttismála í heiminum öllum. […] Þegar kemur að lögum um þungunarrof þá erum við auðvitað að fjalla um réttindi kvenna til að ráða yfir eigin líkama þannig að þetta er eitt af þessum grundvallaratriðum sem varðar stöðu kvenna í heiminum.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×