Innlent

Innkalla barnapeysur vegna kyrkingarhættu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Umræddar reimar á barnapeysunum eru ekki í samræmi við lög um öryggi á vörum.
Umræddar reimar á barnapeysunum eru ekki í samræmi við lög um öryggi á vörum. UNICEF

UNICEF á Íslandi hefur innkallað hettupeysur í barnastærð sem voru settar í sölu sem hluti af fjáröflun fyrir starfsemi samtakanna. Bönt í hettum eða hálsmáli á þessari tilteknu stærð af peysunni geta valdið hætti á kyrkingu.

Þetta kemur fram á vef Neytendastofu þar sem segir að af öryggisástæðum vilji samtökin benda þeim sem keypt hafa umræddar peysu að fjarlægja böndin úr peysunum eða skila peysunni til UNICEF á Íslandi.

Ástæða innköllunarinnar er sú að böndin í hettunum eru ekki í samræmi við lög um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu. Ekki er heimilt að hafa bönd eða reimar í hálsmáli fatnaðar ætlað börnum yngri en 7 ára, upp í 1,34 metra hæð. Í barnafatnaði fyrir börn 7- 14 ára mega bönd eða reimar í hálsmáli ekki standa lengra en 75 mm út úr flíkinni.

Neytendastofa hvetur þá sem keypt hafa ofangreindar flíkur að snúa sér til UNICEF á Íslandi eða fjarlægja böndin úr hettunum en innköllunin varðar aðeins þær peysur sem eru í barnastærð.

Í færslu á vef Unicef á Íslandi segir að hægt sé að skila barnapeysunum gegn fullri endurgreiðslu. Biðjast samtökin afsökunar á mistökunum hvað þetta varðar og segja þau að reimarnar verði fjarlægðar úr öllum ósendum pöntunum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×