Innlent

Sex smit rakin til morgunsunds á Hrafnagili

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Sundlaugin Hrafnagili í Eyjafjarðarsveit.
Sundlaugin Hrafnagili í Eyjafjarðarsveit. Mynd/NorthIceland.is

Svo virðist sem rekja megi uppruna covid-19 smits í sex af þeim átta tilfellum, sem staðfest hafa verið í Eyjafjarðarsveit, til sundlaugarinnar á Hrafnagili í byrjun síðustu viku. Smitrakningarteymi vinnur nú að rakningu en svo virðist sem hægt sé að rekja þau flest saman að því er fram kemur í tilkynningu frá sveitarfélaginu.

„Það er ákveðinn hópur sem að mætir reglulega í morgunsund, svona einangraður hópur, sem að hefur lent í þessu smiti og vonandi eru tilfellin tiltölulega einangruð út frá því,“ segir Finnur Yngvi Kristinsson, sveitarstjóri í Eyjafjarðarsveit í samtali við Vísi.

Hann segir þau smit sem upp hafa komið í sveitarfélaginu til þessa ekki hafa teljandi áhrif á starfsemi þess. „Það fór eitt smit af stað föstudaginn síðasta og þá ákváðum við strax að herða aðgerðir hjá okkur af því þetta er svo lítið samfélag og þá jukum við við sóttvarnir í skólunum og drógum úr samgangi og lokuðum meðal annars á sundlaugina fyrir klukkan fjögur, það er að segja á meðan skólatími var,“ segir Finnur.

„Þessi tilfelli sem eru að koma upp núna eru ekki að hafa áhrif umfram það, alla veganna ekki að svo stöddu. Við vinnum bara mjög náið með aðgerðastjórninni hérna fyrir norðan og þeir hjálpa okkur að taka ákvarðanir ef að við þurfum að bregðast meira við.“

Ekki hafi að svo stöddu þótt tilefni til þess að loka sundlauginni. „Af því að þetta er svo einangrað, og það einangrað við ákveðinn hóp og ákveðinn tíma skilst mér, þannig að þeir hafa rekið það á mjög afmarkaðan tíma á mjög afmarkaðan hátt,“ segir Finnur.

Næstu dagar muni leiða það betur í ljós hvort þeim muni fjölga sem reynist smitaðir eða sem þurfi að fara í sóttkví. Þá er honum ekki kunnugt um nein tilfelli meðal barna, foreldra eða kennara í leik- og grunnskóla. Nokkur börn og foreldrar séu þó í sóttkví.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×