Alls eru nú 96 börn sautján ára og yngri í einangrun eftir að hafa greinst með Covid-19. Þetta kemur fram í uppfærðum tölum á vefnum covid.is.
Alls eru nú 747 manns í einangrun og eru því 12,9 prósent þeirra sautján ára eða yngri.
Þar segir að alls séu níu börn, innan við ársgömul í einangrun, tíu á aldrinum eins til fimm ára, fjörutíu á aldrinum sex til tólf ára, 37 á aldrinum þrettán til sautján ára.
Í tölum dagsins kom fram að 99 hafi greinst með Covid-19 í gær. 59 þeirra sem greindust voru í sóttkví, en fjörutíu ekki. Alls liggja fimmtán manns nú inni á sjúkrahúsi og þar af fjórir á gjörgæslu.
Ef litið er til einstakra aldurshópa má sjá að flest smit eru í aldurshópnum átján til 29 ára, eða 217 manns.
