Innlent

Lægð gengur yfir landið í dag

Kjartan Kjartansson skrifar
Hún er hvorki sérlega djúp né kröpp lægðin sem gengur yfir landið í dag. Henni gæti þó fylgt talsverð úrkoma á suðausturlandi.
Hún er hvorki sérlega djúp né kröpp lægðin sem gengur yfir landið í dag. Henni gæti þó fylgt talsverð úrkoma á suðausturlandi. Vísir/Vilhelm

Rignt gæti af talsverðum ákafa á suðausturhluta landsins í dag, þar á meðal í Mýrdal og í Öræfum, þegar vaxandi lægð sunnan úr hafi gengur norður yfir landið í dag. Vindur snýst í norðlæga átt á morgun með kólnandi veðri.

Lægðin er hvorki mjög djúp né kröpp og því býst Veðurstofan við því að vindar verði í „lægri kantinum“. Þegar lægðin gengur yfir hvessir þó heldur og rignir á austurhelmingi landsins. Spáð er 8-15 metrum á sekúndu austanlands en mun hægari vindi annars staðar. Úrkomulítið verður vestanlands og hiti á bilinu fjórar til ellefu gráður, hlýjast eystra.

Á höfuðborgarsvæðinu er búist við hægri sunnanátt og úrkomulitlu en norðvestan 3-8 metrum á sekúndu með bjartara veðri seinni ðartinn. Hitinn verður á bilinu fimm til tíu stig.

Þegar lægðin er komin yfir Norðurland snýst vindur í vestlæga átt og rofar þá til. Á morgun er spáð hægri norðlægri átt og nokkuð svalara veðri. Gert er ráð fyrir dálitlum skúrum og sums staðar slydduéljum fyrir norðan en þurru að kalla suðvestan til.

Seinna í vikunni er spáð „nokkuð órólegu“ veðri en þó engum ofsa.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×