Innlent

Íbúar í Urriðaholti þurfa að panta strætó utan annatíma

Kjartan Kjartansson skrifar
Reiknað er með allt að 4.500 íbúum í Urriðaholti í Garðabæ þegar hverfið verður fullbyggt. Strætósamgöngur þar verða sambærilegar við Álftanes, Kjalarnes og Mosfellsdal.
Reiknað er með allt að 4.500 íbúum í Urriðaholti í Garðabæ þegar hverfið verður fullbyggt. Strætósamgöngur þar verða sambærilegar við Álftanes, Kjalarnes og Mosfellsdal. Vísir/Vilhelm

Ný strætóleið sem verður tekin í notkun fyrir Urriðaholt í Garðabæ á sunnudag verður ein fjögurra leiða á höfuðborgarsvæðinu sem verður aðeins ekin í pöntunarþjónustu á vissum tímum. Hátt í 2.500 manns búa nú í hverfinu sem er enn í byggingu.

Leið 22 á milli Urriðaholts og Ásgarðs í Garðabæ verður tekin í notkun sunnudaginn 6. september. Í tilkynningu frá Strætó segir að leiðin sé með nokkuð óhefðbundnu sniði þar sem að átján manna smárúta ekur leiðina í stað hefðbundinna strætisvagna á annatímum á virkum dögum. 

Fjórar biðstöðvar verða á leiðinni, við Náttúrufræðistofnun Íslands, Holtsveg, Urriðaholtsskóla og Urriðaholtsstræti.

Þá verður nýja leið aðeins í svonefndri pöntunarþjónustu utan annatíma á virkum dögum og um helgar. Það þýðir að farþegar þurfa að hringja í leigubílastöðina Hreyfil og panta ferð með að minnsta kosti þrjátíu mínútum fyrir brottför samkvæmt tímatöflu leiðarinnar. Farþegar greiða fyrir farið með strætókorti, appi eða skiptimiða.

Í tilkynningunni frá Strætó kemur fram að í skipulagi Urriðaholts sé gert ráð fyrir að Strætó aki hring um hverfið og það hafi verið til skoðunar um tíma með hvaða hætti best væri að útfæra þjónustu almenningssamgangna þar. Gert er ráð fyrir allt að 4.500 íbúum í hverfinu þegar það verður fullbyggt.

Leiðin um Urriðaholt verður fjórða leiðin á höfuðborgarsvæðinu sem er að hluta til í pöntunarþjónustu. Fyrir eru leiðir 23, 27 og 29 að hluta til eða að öllu leyti í pöntunarþjónustu en þær fara um Álftanes, Mosfellsdal og Kjalarnes.

Hér má sjá kort af nýrri leið 22.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×