Innlent

Fimm úrskurðuð í gæsluvarðhald eftir handtökur við Hvalfjarðargöng

Andri Eysteinsson skrifar
Annar bílanna var stöðvaður við norðurenda ganganna.
Annar bílanna var stöðvaður við norðurenda ganganna. Vísir/Jóhann K.

Fimm hafa verið úrskurðuð í gæsluvarðhald að kröfu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í þágu rannsóknar á fíkniefnamáli. Fimmmenningarnir, fjórir karlar og ein kona, voru handtekin í aðgerðum lögreglu í og við Hvalfjarðargöng í gærmorgun.

Í tilkynningu lögreglu segir að talsvert magn af fíkniefnum hafi verið haldlagt við rannsókn málsins. Fólkið sem er á þrítugs-, fertugs-, og fimmtugsaldri hefur verið úrskurðað í gæsluvarðhald til 13. mars næstkomandi.

Að aðgerðum í og við Hvalfjarðargöng komu, auk lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, sérsveit ríkislögreglustjóra sem og lögreglan á Vesturlandi. Fimmmenningarnir voru stöðvaðir á tveimur bílum, annar þeirra var stöðvaður í Hvalfjarðargöngunum sjálfum og hinn við norðurenda þeirra.


Tengdar fréttir

Fimm handteknir í og við Hvalfjarðargöng

Handtökur lögreglunnar í aðgerðum í og við Hvalfjarðargöng á tíunda tímanum í morgun voru fimm talsins en um fíkniefnamál var að ræða, þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×