Innlent

Ás­laug er fyrst dauf­blindra Ís­lendinga til að ljúka há­­skóla­­námi

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Áslaug Ýr Hjartardóttir er ánægð með þá þjónustu sem hún fékk í Háskóla Íslands.
Áslaug Ýr Hjartardóttir er ánægð með þá þjónustu sem hún fékk í Háskóla Íslands. BALDUR HRAFNKELL JÓNSSON

Fyrsti daufblindi einstaklingurinn til að ljúka háskólanámi á Íslandi útskrifaðist í dag með BS gráðu í viðskiptafræði. Draumurinn er að starfa sem bókaútgefandi eða rithöfundur en áður en haldið er út á vinnumarkaðinn ætlar hún í frekara háskólanám.

Um 400 kandídatar brautskráðust frá Háskóla Íslands í dag. Þar á meðal hin 23 ára Áslaug Ýr Hjartardóttir sem útskrifaðist sem viðskiptafræðingur en hún er fyrsti daufblindi einstaklingurinn til að ljúka háskólanámi hér á landi. Daufblindur er einstaklingur sem er mjög skertur á sjón og heyrn.

Áslaug segist virkilega ánægð með þá þjónustu sem hún fékk hjá háskólanum en skólinn útvegaði henni meðal annars túlk í tímum auk dæmatímakennara þegar þörf var á frekari aðstoð. Móðir Áslaugar segir að í tilviki dóttur hennar hafi skólinn uppfyllt að fullu ákvæði í samningi sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er snýr að menntun.

„Ég er mjög þakklát fyrir allt starfsfólkið í háskólanum og þjónustuna sem ég fékk,“ segir Áslaug Ýr, viðskiptafræðingur.

Áslaug ætlar ekki að láta viðskiptafræðigráðuna duga en hún er á leið í frekara háskólanám.

„Ég er að byrja í bókmenntafræði. Áður en ég byrjaði í háskólanum ákvað ég að fara í viðskiptafræði, svo bókmenntafræði og svo ákveða hvað ég ætla að gera í lífinu,“ segir Áslaug.

Ert þú búin að ákveða hvað þú ætlar að gera?

„Kannski vera bókaútgefandi eða rithöfundur. Kannski enda ég á markaðsskrifstofu,“ segir Áslaug.

Hún segir félagslífið það skemmtilegasta við háskólann, en Áslaug tók virkan þátt í nemendafélaginu auk þess sem hún bauð sig fram til Stúdentaráðs.

Hún segir daginn í dag gleðidag.

„Ég ætla að útskrifast úr viðskiptafræði svo ætla ég að eyða deginum með fjölskyldunni og fagna áfanganum.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.