Innlent

Handtóku mann á leiðinni úr innbroti og fundu mikið magn af þýfi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Lögregla á Suðurnesjum rannsakar málið.
Lögregla á Suðurnesjum rannsakar málið. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á Suðurnesjum handtók í nótt mann sem var á göngu með bakpoka og þótti grunsamlegur. Maðurinn viðurkenndi að vera á leið úr innbroti og vísaði lögreglu að lokum á mikið magn af þýfi sem talið er koma úr innbrotahrinu sem lögregla hefur haft til rannsóknar að undanförnu.

Frá þessu er greint á Facebook-síðu lögreglunnar þar sem segir að lögreglumenn á vakt hafi kannast við manninn er hann var á göngu með bakpokann í nótt. Strax kviknaði grunur um að um væri að ræða manninn sem lögregla hefur leitað að í tengslum við innbrotahrinu.

Fengu lögreglumenn að skoða í bakpokann og segir í Facebook-færslunni að hann hafi „augljóslega ekki“ verið í eigu mannsins, sem var handtekinn. Viðurkenndi hann þá að hann væri á leiðinni úr innbroti. Vísaði hann lögreglu á heimili sitt þar sem fannst mikið magn af veiðidóti, verkfærum og öðrum munum sem taldir eru þýfi.

Annar maður var í íbúðinni og var hann handtekinn, grunaður um að tengjast innbrotunum. Verða mennirnir yfirheyrðir síðar í dag. Unnið er að því að skrá niður þá muni sem fundust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×