Innlent

Segir Maní ekki eiga eftir að lifa af fari hann til Íran

Birgir Olgeirsson skrifar
Maní og foreldrar hans við dómsmálaráðuneytið í dag.
Maní og foreldrar hans við dómsmálaráðuneytið í dag. Vísir/Sigurjón

Mótmælendur komu saman við dómsmálaráðuneytið í dag til að krefjast þess að transpiltur og foreldrar hans fái að vera hér á landi. Formaður samtakanna 78 segir lífi piltsins stofnað í hættu verði hann sendur úr landi.

Írönsk fjölskylda fær ekki hæli á Íslandi og verður send úr landi á morgun. Mótmælendur sendu dómsmálaráðherra skýr skilaboð fyrir utan ráðuneytið í dag.

Framkvæmdastjóri samtakanna 78 segir lífi hins sautján ára gamla transpilts Maní Shahidi, stofnað í hættu verði honum vísað úr landi.

„Við erum með skýrslur sem segja að hans andlega heilsa muni hljóta gífurlega hnekki að rífa hann upp hér með rótum. Hér hefur hann fundið öryggi, hér er hann trans og hér er hann góður. Það hefur gríðarleg áhrif á hans andlega heilsu að rífa hann upp segja skýrslur sem við erum með,“ segir Daníel Arnarsson framkvæmdastjóri Samtakanna 78.

Fjölskyldan flúði ofsóknir sem fjölskyldufaðirinn varð fyrir vegna þess að hann kenndi japanska hugleiðslu. Fyrsti viðkomustaður var Portúgal. Þar fundu þau ekki öryggi og komu til Íslands fyrir tæpu ári. Þau óttast öryggi sitt verði þau send aftur til Portúgal.

„Íslensk yfirvöld ætla í rauninni að rífa hann upp með rótum og henda honum aftur til Portúgal þar sem fjölskyldan er ekki með neina stöðu. Fyrir utan það að írönsk stjórnvöld bíða eftir þeim í Portúgal. Þetta er fáránlegt mál, þetta er gallað mál í grunninn. Það er greinilegt að ekki hefur verið unnið nægjanlega í málinu og þetta er réttlætismál, hann á að vera hér,“ segir Daníel.

Maní sagði í samtali við fréttastofu Stöðvar 2 að á Íslandi hefði hann fundið öryggi til að segja foreldrum sínum að hann væri í raun strákur.

„Maní er ekki að fara að fá þá þjónustu sem hann þarf, hvort sem hann fer til Portúgal, og alls ekki ef hann fer til Íran. Það lifir hann ekki af.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×