Erlent

Fyrr­verandi for­seti Inter­pol dæmdur í þrettán ára fangelsi

Atli Ísleifsson skrifar
Meng Hongwei tók við embætti forseta Interpol árið 2016, en lét af embætti haustið 2018 eftir að hann var handtekinn.
Meng Hongwei tók við embætti forseta Interpol árið 2016, en lét af embætti haustið 2018 eftir að hann var handtekinn. Getty

Dómstóll í Kína hefur dæmt Meng Hongwei, fyrrverandi forseta Interpol, í þrettán og hálfs árs fangelsi fyrir fjársvik. Hann játaði sök í málinu síðasta sumar.

Meng hlaut dóm fyrir að hafa þegið um fjórtán milljónir yuan, um 260 milljónir króna, í mútur á árunum 2005 til 2017. Auk fangelsisdómsins var Meng dæmdur til greiðslu um 36 milljón króna sektar.

Kínversk yfirvöld greindu frá því í október 2018 að Meng, þáverandi forseti Interpol, væri til rannsóknar vegna gruns um fjármálamisferli. Meng hafði þá verið saknað í nokkrar vikur, en það var eiginkona hans til tilkynnti að hann hefði ekki skilað sér heim til Frakklands eftir ferð til Kína. Síðar kom fram að hann væri í haldi í heimalandinu.

Meng Hongwei var aðstoðaröryggismálaráðherra Kína áður en hann tók við embætti forseta Interpol. Hann var rekinn úr Kommúnistaflokknum í mars 2019 og var það liður í herferð Xi Jinping Kínaforseta gegn spillingu.

Meng tók við embætti forseta Interpol árið 2016, en lét af embætti haustið 2018 eftir að hann var handtekinn.


Tengdar fréttir

Kínverjar staðfesta að hafa forseta Interpol í haldi

Kínversk stjórnvöld hafa viðurkennt að vera með Meng Hongwei, forseta alþjóðalögreglunnar Interpol í haldi. Hongwei hefur verið talinn týndur og ekkert af honum spurst síðan 25. september.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×