Innlent

Segir Ís­lendinga skelfi­lega eftir­báta Norður­landa­þjóðanna í heima­hjúkrun

Birgir Olgeirsson og Sylvía Hall skrifa
Ólafur Þór Gunnarsson ræddi stöðu hjúkrunarfræðinga í Sprengisandi í morgun.
Ólafur Þór Gunnarsson ræddi stöðu hjúkrunarfræðinga í Sprengisandi í morgun. Vísir/Vilhelm

Íslendingar eru skelfilegar eftirbátar Norðurlandaþjóðanna þegar kemur að heimahjúkrun segir varaformaður Velferðarnefndar. Með því að auka heimahjúkrun væri hægt að minnka fráflæðisvanda Landspítalans til muna og skapa þar með betri starfsaðstæður fyrir hjúkrunarfræðinga.

Ólafur Þór Gunnarsson, varaformaður velferðarnefndar Alþingis, og Teitur Guðmundsson læknir ræddu stöðu sjúkraliða og hjúkrunarfræðinga í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun. Þar sagði Ólafur að bæta þyrftu starfsaðstæður sjúkraliða og hjúkrunarfræðinga svo þeir sem hafa menntað sig í þeim fræðum fáist til að sinna þessu krefjandi starfi.

Ekki sé lengur hægt að ganga út frá því að litið sé á það sem dyggð að vinna mikið. Búa þurfi þannig um hnútana að starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga sé aðlaðandi. Álagið sé of mikið á Landspítalanum, sér í lagi bráðamóttökunni, þar sem leysa þarf fráflæðisvandann því of margir séu á spítalanum sem þurfi ekki að vera þar.

Báðir voru þeir Ólafur og Teitur sammála um að vandinn yrði ekki einungis leystur með auknu fjármagni, fara þyrfti í kerfisbreytingu til að ná settu marki. Var heimahjúkrun nefnd þar sérstaklega.

„Í 120 þúsund manna samfélagi í Svíþjóð settu þau upp öflugt teymi lækna, hjúkrunarfræðinga og annarra þjónustuaðila sem fóru heim til veikasta fólksins, sinnti því heima í miklu miklu meira mæli heldur en við gerum hérna. Það eru lygilegar tölur sem koma út úr slíkum verkefnum. Innlögnum þessa fólks fækkar um nærri því níutíu prósent,” segir Ólafur Þór.

Ólafur benti á að Íslendingar séu skelfilegir eftirbátar Norðurlandaþjóðanna þegar kemur að heimahjúkrun.

„Við erum til að mynda núna að nota 0,1 prósent af vergri landsframleiðslu á ári í heimahjúkrun á meðan hin Norðurlöndin eru að meðaltali að nota eitt prósent, það er að segja að þau eru að nota næstum því tíu sinnum meira en við. Þarna þurfum við virkilega að taka okkur á.”

Ólafur er þeirra skoðunar að allt samfélagið þurfi að þrýsta á það að gengið verði til samninga við opinbera starfsmenn.

„Ég held að við þurfum öll í rauninni, allt samfélagið þarf að auka þrýstinginn á alla sem sitja við þetta borð,” segir Ólafur Þór.

Hlusta má á viðtalið í heild sinni hér að neðan.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.