Innlent

Tugir ökumanna í vandræðum á Hellisheiði og í Þrengslum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá Suðurlandsvegi en vegirnir um Hellisheiði og Þrengsli eru nú báðir lokaðir vegna veðurs.
Frá Suðurlandsvegi en vegirnir um Hellisheiði og Þrengsli eru nú báðir lokaðir vegna veðurs. vísir/vilhelm

Tugir ökumanna hafa lent í vandræðum nú eftir hádegi á Hellisheiði og í Þrengslum vegna veðurs. Veginum um Hellisheiði var lokað um klukkan 12 og lokað var um Þrengslin um klukkan 13.

Hafa björgunarsveitarmenn verið kallaðir út til að aðstoða ökumennina sem og á Lyngdalsheiði þar sem smárúta lenti í vanda. 

„Það hefur verið eitthvað um útköll, aðallega á suðvesturhluta landsins. Í kringum hádegi fóru björgunarsveitarmenn og mönnuðu lokanir á heiðunum hérna í kring en eftir að lokanirnar tóku gildi fóru að berast útköll og það eru núna tugir bíla í vandræðum á Hellisheiði og í Þrengslum. Þá er líka búið að óska eftir aðstoð á Lyngdalsheiði,“ segir Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, í samtali við Vísi. Ástandið sé verst í Þrengslunum.

Hann segir björgunarsveitarmenn aðstoða fólk við að losa bílana til að létta á því það skafi mikið í kringum bílana og þá verði erfitt fyrir snjómoksturstæki að komast um.

Hins vegar sé það forgangsatriði að koma fólki í burtu ef ekki er hægt að losa bílana og þurfi þá aðrir að eiga við það að koma bílunum í burtu.

Þá ítrekar Landsbjörg það að fólk fylgist með færð og hinkri frekar en að reyna lauma sér yfir fyrir lokanir.

Appelsínugul viðvörun er í gildi á Suðurlandi vegna austan hríðar en viðvörunin gildir til klukkan 15.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×