Innlent

Þingmaður fastur í flugvél í rúman hálfan sólarhring

Andri Eysteinsson skrifar
Njáll Trausti er einn þeirra fjölmörgu farþega sem sitja fastir við Keflavíkurflugvöll.
Njáll Trausti er einn þeirra fjölmörgu farþega sem sitja fastir við Keflavíkurflugvöll. Vísir/Vilhelm

Fjölmargir flugfarþegar hafa setið fastir í flugvélum við Keflavíkurflugvöll í kvöld en vegna veðurs og vinda hefur ekki verið hægt að koma farþegum frá borði. Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og nefndarmaður í samgöngunefnd Alþingis er einn þeirra sem sitja sem fastast.

Í samtali við Vísi segir Njáll daginn hafa verið langan.

„Við lögðum af stað frá Tenerife klukkan átta í morgun og vorum komin norðan við Bretlandseyjar þegar snúið var við til þess að skipta um áhöfn,“ segir Njáll. Lent var á Gatwick-flugvelli og við tók um þriggja klukkustunda bið í vélinni áður en haldið var áleiðis til Íslands.

„Svo erum við að lenda hérna um 19:25 og höfum síðan beðið hér úti í vél,“ segir þingmaðurinn og bætir við. „Mér varð hugsað til þess áðan að hægt er að fljúga á milli London og Ástralíu á þessum tíma.“

Njáll segir að skyggni hafi verið lítið sem ekkert á flugbrautinni skömmu eftir lendingu, með tímanum hafi það þó batnað til muna en enn sé hvasst. Til að byrja með hafi vélinni verið lagt nálægt gömlu flugstöðinni en hafi seinna verið færð.

„Áður en vélin var færð þurfti að moka snjóinn frá aðalhjóli vélarinnar,“ sagði Njáll sem segir snjóskafla hafa myndast upp við vélina.

Á meðan að á samtalinu stóð bárust þær fréttir frá flugstjóra Norwegian Air-vélarinnar að unnið væri að því að moka snjó frá flugstöðinni og því næst yrði hægt að hleypa farþegum frá borði. Tíu vélar sitja fastar á flugbrautinni og var vél Norwegian frá Tenerife sú sjötta í röðinni.

Ferðalagið hefur verið langt hjá farþegum vélarinnar en Njáll segir farþega hafa sýnt mikinn skilning og tekið fréttunum af jafnaðargeði.

„Það eru allir þolinmóðir þetta er ótrúlegur hópur af fólki,“ sagði Njáll Trausti Friðbertsson, Alþingismaður og farþegi Norwegian Airlines.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×