Liverpool vann öruggan sigur á erkifjendunum í Manchester United

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Liverpool fagnaði sínum 21. sigri á leiktíðinni með 2-0 sigri á Man Utd í dag
Liverpool fagnaði sínum 21. sigri á leiktíðinni með 2-0 sigri á Man Utd í dag vísir/getty

Leikurinn byrjaði frekar rólega eins og reiknað var með þá sat Manchester United til baka og freistaði þess að nýta skyndisóknir sínar. Það gekk ágætlega framan af en á 14. mínútu leiksins fengu heimamenn hornspyrnu sem Trent Alexander-Arnold tók.

Spyrnan flaug inn á teig þar sem Virgil Van Dijk kom aðsvífandi ogstangaði knöttinn af öllu afli í netið. Svæðisvörn gestanna að venju skelfileg en Van Dijk jarðaði hinn unga Brandon Williams í loftinu.

Rúmlega tíu mínútum síðar tvöfaldaði Roberto Firmino forystu heimamanna með frábæru skoti eftir að Van Dijk hafði jarðað David De Gea í loftinu. Boltinn barst til Firmino sem skoraði með frábæru skoti en eftir að hafa verið skoðað í Varsjánni var markið dæmt af vegna brots Van Dijk á De Gea.

Áfram hélt stórsókn heimamanna og hélt Georginio Wijnaldum að hann hefði komið Liverpool í 2-0 á 36. mínútu en mark hans dæmt af vegna rangstöðu. Þá varði De Gea frá Sadio Mané undir lok fyrri hálfleik.

Það má því með sanni segja að gestirnir hafi verið stálheppnir að sleppa inn í búningsklefa í hálfleik aðeins 1-0 undir.

Orrahríð Liverpool hélt áfram í upphafi síðari hálfleik en Mohamed Salah klúðraði algjöru dauðafæri á markteig eftir frábæra sókn Liverpool og skömmu síðar átti Jordan Henderson bylmingsskot sem stefndi í netið ef ekki hefði verið fyrir magnaða markvörslu De Gea í markinu.

Eftir tæpan klukkutímaleik fékk Anthony Martial besta færi gestanna en sá franski átti þá góðan samleik við Andreas Pereira sem skilaði Martial í góðu skotfæri innan teigs en Martial þrumaði knettinum yfir markið.

Í kjölfarið áttu gestirnir nokkur góð skotfæri utan af velli en ekkert sem Alisson réð ekki við í marki heimamanna. Undir lok leiksins settu gestirnir mikla pressu á heimamenn án þess þó að skapa sér neitt sem kalla mætti alvöru færi og það var því miður of lítið of seint fyrir Manchester United. Van Dijk sá til þess að allt sem kom inn á vítateig heimamanna var skallað frá.

Það var svo alveg undir lok leiks þegar gestirnir áttu misheppnaða hornspyrnu þá negldi Alisson knettinum fram á Mo Salah sem óð í gegn og lagði knöttinn örugglega framhjá De Gea í marki gestanna. Fyrsta mark Egyptans gegn Man Utd og lokatölur leiksins 2-0 heimamönnum í vil.

Var þetta 21. sigur Liverpool á leiktíðinni. Þá var þetta sjöundi leikurinn í röð í ensku úrvalsdeildinni sem Liverpool heldur hreinu. Það er nær öllum ljóst að titillinn er á leið til Liverpool-borgar en liðið er með 16 stiga forystu á Manchester City sem er í 2. sætinu ásamt því að vera með leik til góða.

Á sama tíma var þetta sjöunda tap Manchester United á leiktíðinni og liðið er sem fyrr í 5. sæti deildarinnar, fimm stigum frá hinu margumtalaða 4. sæti sem gefur þátttökurétt í Meistaradeild Evrópu.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira