Innlent

Ekkert ferðaveður á Vestfjörðum fram á þriðjudagskvöld

Kjartan Kjartansson skrifar
Verst á veðrið að verða á Vestfjörðum næstu daga. Myndin er úr safni.
Verst á veðrið að verða á Vestfjörðum næstu daga. Myndin er úr safni. Vísir/Samúel Karl

Veðurstofan hefur gefið út appelsínugula veðurviðvörun vegna norðaustan stórhríðar á Vestfjörðum sem á að hefjast í nótt og standa fram á morgundaginn. Ekkert ferðaveður verður þar frá því í nótt og fram á þriðjudag. Gular viðvaranir taka gildi fyrir aðra landshluta á mánudagskvöld og fram á þriðjudagskvöld.

Gul viðvörun vegna sunnan hríðar tók gildi fyrir Vestfirði og Breiðafjörð klukkan sjö í morgun til hádegis. Í nótt er svo búist við norðaustan stormi eða roki, 20-25 metrum á sekúndu með talsverðri snjókomu á Vestfjörðum. Varað er við miklum skafrenningi með lélegu skyggni og slæmum akstursskilyrðum. Appelsínugul viðvörun tekur gildi vegna þess klukkan fjögur í nótt og stendur til klukkan 14:00 á mánudag.

Snemma kvölds á mánudag tekur svo gul viðvörun við á Vestfjörðum sem gildir til klukkan 18:00 á þriðjudag. Þá er enn gert ráð fyrir stormi eða roki og miklum skafrenningi og slæmum akstursskilyrðum.

Í öðrum landshlutum taka gular viðvaranir gildi í nótt, fyrst á landinu sunnanverðu en síðar á Austurlandi og á landinu norðanverðu. Varað er við suðaustan hríð með snjókomu eða slyddu eða rigningu við sjávarmál. Búast má við lélegu skyggni, skafrenningi á heiðum og versnandi akstursskilyrðum. Viðvaranir utan Vestfjarða gilda fram á mánudagsmorgun eða hádegi eftir landshlutum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.