Innlent

Starfsfólk kvartað undan áreitni, ráðningum og stöðuveitingum

Andri Eysteinsson skrifar
Lögreglustöð lögreglunnar á Suðurnesjum í Reykjanesbæ.
Lögreglustöð lögreglunnar á Suðurnesjum í Reykjanesbæ. Vísir/Vilhelm

Mikið hefur gustað um embætti lögreglunnar á Suðurnesjum undanfarna daga eftir að greint var frá því að fjórir yfirmenn innan embættisins hafi verið sagðir reyna að grafa undan Ólafi Helga Kjartanssyni lögreglustjóra.

Í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins var greint frá lýsingum starfsmanna embættisins af stöðu mála. Vildu starfsmennirnir ekki koma fram undir nafni. Þar segir að óánægjan beinist ekki aðeins gegn lögreglustjóranum, sem lýst sé sem afskiptalausum stjórnanda sem tali niður til samstarfskvenna sinna, heldur einnig að Öldu Hrönn Jóhannsdóttur, yfirmanns á lögfræðisviði og mannauðsstjóra embættisins Helga Kristjánssonar.

RÚV greinir frá því að Alda sé sögð beita hörku og ógnunum og hafi starfsmenn sem andmæla henni misst vinnuna. Kvartað væri undan ráðningum og stöðuveitingum og sagt að ófaglega sé staðið að þeim. Til að mynda séu dæmi um að lögreglumaður sem sakaður hafi verið um kynferðislega áreitni af samstarfskonum hafi fengið stöðu hækkun.

Þá segir að mannauðsstjórinn hafi ekki tekið á kvörtunum og konur hafi því þurft að leita til karlkyns samstarfsmanna til þess að fá þá til að ræða við lögreglumanninn.

Þá er Ólafur Helgi lögreglustjóri sagður skipta um föt fyrir opnum dyrum, hafa átt samtal við samstarfskonu ber að ofan á skrifstofu sinni og hafi notað tölvubúnað embættisins til að semja og senda klúran texta sem fannst í prentara á stöðinni.

Lögreglustjórinn hafi brugðist illa við kvörtunum vegna þessa og hafi hótað starfsmönnum brottrekstri.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×