Menning

Bergþór Pálsson verður skólastjóri Tónlistarskóla Ísafjarðar

Sylvía Hall skrifar
Bergþór Pálsson er ekki á leið til Bessastaða í þetta skiptið, Hann heldur nú vestur á Ísafjörð þar sem hann mun taka við skólastjórastöðu Tónlistarskóla Ísafjarðar. 
Bergþór Pálsson er ekki á leið til Bessastaða í þetta skiptið, Hann heldur nú vestur á Ísafjörð þar sem hann mun taka við skólastjórastöðu Tónlistarskóla Ísafjarðar.  Facebook

Stórsöngvarinn Bergþór Pálsson hefur verið ráðinn skólastjóri Tónlistarskóla Ísafjarðar og mun hefja störf 1. ágúst næstkomandi. Hann segir mikilvægt að taka að sér nýjar áskoranir og kveðst spenntur fyrir verkefninu.

Það er því stutt í flutninga á næstunni en Bergþór og Albert Eiríksson, eiginmaður hans, festu nýlega kaup á húsi í Grafarvogi og voru því í flutningum nú þegar. Hann segir svolítið sérstakt að undirbúa flutninga í miðjum flutningum en það sé þó spennandi að taka við þessu starfi – í rauninni gamall draumur að rætast.

„Það er svo mikilvægt í lífinu að staðna ekki. Maður verður að taka að sér ögrandi verkefni. Þegar ég var í námi í Bandaríkjunum tók ég aukagrein í stjórnun listastofnanna, þannig það hefur alltaf blundað í mér. Ég hef bara alltaf haft svo mikið að gera á öðrum sviðum en það er kannski kominn tími til þess að nýta sér það,“ segir Bergþór í samtali við Vísi.

Hann voni að hann verði réttur maður á réttum stað, enda sé Ísafjörður dásamlegur staður.

„Ég hef alltaf dáðst að orkunni í fjöllunum og mannlífinu á Ísafirði, þessari menningarhefð sem er svo sterk og þessum rótum sem þessi skóli stendur á.“

Hann segir Tónlistarskólann á Ísafirði vera einn besta tónlistarskóla á landinu. Þar sé gott fólk fyrir og hann gangi því fullur tilhlökkunar inn í spennandi samstarf.

„Það gerist ekkert nema með samvinnu og það er frábært fólk að vinna við tónlistarskólann á Ísafirði. Ég hef kynnst því þegar ég hef komið þangað að prófdæma og þetta er einn af topp tónlistarskólum landsins.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.