Innlent

Segir staðsetningu smáhýsa í Hlíðum heppilega

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Velferðarráðs Reykjavíkurborgar.
Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Velferðarráðs Reykjavíkurborgar. Vísir/Baldur

Formaður velferðarráðs Reykjavíkurborgar segir staðsetningu smáhýsa sem reisa á í Hlíðahverfi heppilega. Hlustað hafi verið á athugasemdir íbúa og biður hann fólk um að líta í eigin barm þar sem heimilislaust fólk muni búa í öllum hverfum.

Í kvöldfréttum í gær greindum við frá áhyggjum íbúa af uppbyggingu smáhýsa í Hlíðahverfi. Hýsin eru ætluð einstaklingum sem erfiðlega hefur gengið að útvega búsetuúrræði vegna áfengis- og vímuefnaneyslu eða annarra veikinda.

Áhyggjur íbúa snúa að staðsetningu úrræðisins en í grenndinni eru nú þegar tvö félagsleg úrræði og segjast íbúar nokkuð varir við þau. Víða séu sprautur og nálar í nærumhverfinu. Fyrir framan svæðið þar sem smáhýsi eiga að rísa er göngu- og hjólastígur, en um hann fara börn reglulega til að komast leiða sinna á íþróttaæfingar.

Formaður velferðarráðs Reykjavíkurborgar segir staðsetninguna heppilega.

„Við erum auðvitað bara í borg og við verðum að finna staðsetingar og við reynum að velja þær af kostgæfni. Það hefur enn enginn komið til mín og sagt „þetta er heppileg staðsetning“ þannig það er svolítið þannig eins og fólk vilji ekki hafa þetta í sínu hverfi og ég held að við þurfum að horfa svolítið í eigin barm. Heimilislaust fólk mun búa í öllum hverfum,“ sagði Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður velferðarráðs Reykjavíkurborgar.

Hún segir smáhýsin þurfa að vera miðsvæðis - nálagt samgönguæðum og annarri þjónustu.

„Ég hvet alla til þess að bíða aðeins og sjá. Það er ekki að fara að skapa neina hættu þarna, frekar en við húsin sem eru að rísa í Hlíðarendahverfinu, við vitum ekkert hverjir flytja þangað,“ sagði Heiða.

Formaður foreldrafélags Hlíðaskóla gagnrýnir borgina fyrir samráðsleysi.

„Það var haldinn einn íbúafundur. Við getum í raun ekki upplýst neitt meira en það að þarna eigi að byggja tvö lítil hús sem verða leigð út. Ég sé ekki alveg hvað meira við gætum gert til að hafa samráð en það var virkilega hlustað á allar athugasemir sem komu úr hverfinu,“ sagði Heiða.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.