Lífið

„Miðaldra vinkonur“ fara út fyrir boxið og rúlla hringinn í beinni

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
rr200
Mynd/ROLL AROUND ICELAND

Rúna Magnúsdóttir, Bjarney Lúðvíksdóttir og Rannveig Grétarsdóttir ætla að fara hringinn í kringum landið á rafmagnshlaupahjólum í sumar. Þær verða á flakki 22. júní til 5. júlí og ætla að sýna frá öllu ferðalaginu á samfélagsmiðlum ROLL AROUND ICELAND. Hópurinn stefnir á að vera „í beinni“ í tíu klukkustundir á dag á ensku til þess að reyna að auglýsa landið fyrir ferðamönnum.

„Við erum bara svona þrjár miðaldra vinkonur sem kynntumst fyrir um áratug og höfum brallað allskonar saman síðan,“ segir Rúna. 

„Bjarney er leikstjóri og framleiðandi hjá Eyjafilm, hún er til dæmis konan á bak við geðræktarverkefnið Geðveik jól, heimildarmyndina „Að Sjá Hið Ósýnilega“ um konur á einhverfurófinu og skilst mér að hún sé að frumsýna aðra heimildarmynd í september. Rannveig Grétarsdóttir er framkvæmdastjóri og einn eigandi á Eldingu Hvalaskoðun. En Elding er eins og örugglega allir vita, margverðlaunað fyrirtæki, ekki síst fyrir umhverfisstefnu og vernd sjávarspendýra.“

Rúna er sjálf stofnandi The Change Makers og meðstofnandi #NoMoreBoxes vitundarvakningarinnar og aðferðafræði.

„Ég hef frá árinu 2007 starfað með allskonar leiðtogum bæði á innanlandsmarkaði og alþjóðamarkaði við að hjálpa fólki við að fara út úr boxinu, byggja upp sitt persónulega brand til að verða betri, brattari og bjartari í lífi og starfi.“

Hópurinn á æfingu fyrir ferðina.Mynd/ROLL AROUND ICELAND

Fyrsta tillagan var keyrð í kaf

Planið þeirra er einfalt. „Að rúlla hringinn á raf-apparati, taka tal við skemmtilegt fólk, deila því með vinum okkar sem búa erlendis svona af því að þau komast kannski ekki til okkar í sumar. Þetta verður okkar framlag og tilraun til þess að fólk velji Ísland sem sinn næsta áfangastað ” segir Bjarney hress að bragði.

Rannveig kinkar kolli og bætir við: „Ég eiginlega er ekki alveg með á hreinu hvað við erum að fara að gera,“ segir hún og brosir út í annað. „En, svona í grunninn þá ætlum við bara að gera eins og Rúna segir okkur að gera þetta, það er að segja fara út úr boxinu og rúlla á rafmagnshlaupahjólum allan hringinn um landið.“

Það var Bjarney sem kom með hugmyndina um að þær vinkonurnar gerðu eitthvað saman.

„Sko, þannig var að ég sat heima að með tölvuna á Covid bumbunni, eitthvað að vandræðast með sjálfa mig, pæla í framtíðinni, hugsa um hvað væri nú eiginlega hægt að gera til að hafa einhver jákvæð áhrif í stöðunni eftir COVID-19. Á meðan ég er að hugleiða þetta risastóra mál, dett ég inná skemmtilegan þátt um flottar stelpur sem kalla sig Marglitturnar, flottur samstilltur hópur sem syntu yfir Ermasundið. Mér fannst eitthvað svo töff að sjá þær allar taka á skarið, gera eitthvað öðruvísi, allar í búning með samstillt markmið, - Ég sló til og henti inn spurningu í Facebook hópspjalli, hvort við gætum ekki gert eitthvað svona sniðugt?“

Bjarney byrjaði á að koma með þá hugmynd að þær myndu fara á sjóbrettum í kringum Ísland.

„Sú tillaga var algjörlega keyrð í kaf. Ég fékk ekki einu sinni broskarl fyrir þá hugmynd. Svo kom Rúna allt í einu inn í spjallið og við förum að henda svona allskonar hugmyndum á milli okkar. Allt í einu var bara komin þessi fyrirtaks hugmynd, að við myndum fara í kringum landið, vera í beinni á leiðinni þannig að vinir okkar víðsvegar um heim gætu upplifað Ísland á 25 kílómetra hraða – Það komu loksins 14 broskallar frá Rannveigu og setningin „Selt! Ég er sko game“ og svo fórum við að þróa hugmyndina og slípa hana til.“

Hringurinn á 25 kílómetra hraða

„Út á við markmiðið er að gefa vinum okkar nær og fjær, og vinum þeirra nær og fjær að upplifa Ísland. Inn á við markmiðið er að fara út úr boxinu, gera eitthvað skemmtilegt saman, búa til minningar, kynnast nýju fólki og bara gera eitthvað skemmtilegt sem verður gaman að minnast á kannski í jarðarförinni.

Svo má náttúrulega ekki gleyma því að við erum að fara gera eitthvað sem engin hefur gert áður, að rúlla á 25 kílómetra hraða hringinn á rafbrettum sem breytast síðan í rafhjól þar sem brettin eru bönnuð,“ segir Rúna.

Rannveig segir að undirbúningurinn gangi ágætlega.

„Það er vissulega alltaf eitthvað að koma upp sem við vorum ekki búnar að sjá fyrir þegar hugmyndin kom fyrst upp, en það er líklega bara hluti af pakkanum. Það er æðislega gaman að upplifa áhuga fólks í ferðaþjónustunni úti um allt land sem er að hafa samband og bjóða okkur að koma til sín á leiðinni. Fólk sem er tilbúið til að rétta okkur hjálparhönd. Alveg ómetanlegt, því að þessi ferð kostar alveg sitt sko.“

Húmorinn í fínu formi

Þegar blaðamaður spyr út í bakgrunn þeirra þegar kemur að hreyfingu og líkamsrækt, slær þögn á hópinn. Þær horfa allar á hvor aðra og skella svo upp úr. 

„Æi eiginlega bara enginn, og við erum ekki í neinu sérstaklega góðu formi. Nema kannski húmorinn, hann er alveg í fínu formi en við rúllupylsurnar erum sammála því að það má ekki láta formið stoppa sig að gera eitthvað skemmtilegt,” 

svarar Rannveig. Þegar talið berst að meiðslum sem gætu strítt þeim á leiðinni svarar Rúna:

„Hrikalega spyrðu góðra spurninga – höfum bara ekki einu sinni pælt í því. Rannveig og Bjarney er eitthvað sem ykkur dettur í hug? Sko fyrir utan þetta með hnéð, balansinn og taugaveiklunina?” Þær hlægja svo allar.

Vinkonurnar segja að bakgrunnurinn þegar kemur að hreyfingu sé ekki mikill.Mynd/ROLL AROUND ICELAND

„Sem stendur sjáum við fyrir okkur að leggja af stað frá Árbæjarsafni mánudaginn 22. júní eldsnemma, áður en traffíkin verður orðin þung og við erum sem sagt að fara Norðurleiðina, vorum samt lengi vel að fara rúlla suðurleiðina en fengum svo svona „askoti“ góð ráð hjá vini okkar Torfa G Yngvason, sem er búin að hjóla sjö sinnum í kringum Ísland. Hann sagði okkur að fara norðurleiðina vegna þess að þá myndum við mögulega vera með austanáttina í rassinn 60 prósent af leiðinni,” segir Bjarney eins og ákveðinn fararstjóri.

Mikilvægt að halda fókus

Alls eru þetta 1322 kílómetrar og ætla vinkonurnar að ná þessu á 14 dögum. Rúna segir að það sé fernt skemmtilegt sem hún hlakkar til í ferðinni.

„Númer eitt að kynnast landinu okkar á þennan máta. Númer tvö, að kynnast fólki út um allt land sem er að gera geggjaða skemmtilega hluti. Númer þrjú, að kynnast Bjarneyju og Rannveigu betur og númer fjögur að kynnast sjálfri mér betur.”

Þegar spurt er hvað verði erfiðast svarar Bjarney fyrst. Hún telur að það verði erfiðast að halda fókus.

„Ekki bara á hjólinu, heldur líka á myndavélinni. Maður vill ekki kynna landið úr fókus,” segir hún áhyggjufull.

„Að hjóla upp brekkur og takast á við þessa áskorun að vera með þessum tveimur í tvær vikur.Þær eru sífellt að fara með mig út úr boxinu, ég veit hreinlega ekki hvar ég verð eftir þetta,” segir Rannveig.

„Að hlusta ekki á röddina sem kemur örugglega til með að segja margsinnis við mig; Rúna, hvaða „akkotans“ vitleysu ertu búin að koma þér í?” segir Rúna.

Reikna fótsporið á leiðinni

Þær segjast vera mjög peppaðar að sjá og upplifa þetta ferðalag í heild. Þær segja allar stoppistöðvarnar spennandi og skora á fólk að senda skilaboð og benda á góðar hugmyndir. Hópurinn hefur ekki alveg ákveðið hvar eigi að gista og borða á leiðinni.

„Við erum þvílíkt opnar fyrir að heyra tillögur frá fólki, líka hugmyndir um áhugaverða viðmælendur sem tala góða ensku og geta rabbað við okkur um sögu Íslands, menningu, áfangastaði, sturlaðar staðreyndir. Allt sem getur lokkað ferðamenn til landsins,“ segir Rannveig.

Þær verða með fylgdarbíl og ein kemur til með að keyra og skiptast þær því á að vera á götunni.

„Við þurfum að skipta rafmagninu eða hleðslunni á milli okkar og erum búnar að reikna út hversu langt við drífum, þegar tekið er inn í reiknidæmið allar brekkur, mótvindur og annað óvænt. Á kvöldin ætlum við svo að hlaða okkur og öll batteríin. Við ætlum að skrá fótsporin okkar og reikna svo út hver útkoman er þegar ferðalaginu líkur.“

Bjarney segir að þær séu enn að útfæra tæknihliðina á beinu útsendingunum.

„Líklega verðum við á Vimeo og þaðan yfir á Facebook LIVE og þá verðum við einnig á að vera virkar á Instagram @RollAroundIceland

Lifa lífinu út frá lífsgleði og tilgangi

Þær vonast til að geta verið allt að tíu klukkustundir á dag í beinni en það á eitthvað eftir að vera mismunandi eftir dögum. Á morgnanna verða þær á ferðinni og eftir hádegi ætla þær svo að ræða við áhugavert fólk.

„Við vonum svo sannarlega að þetta ævintýri okkar komi til með að ná markmiðinu sínu – að gefa landinu okkar gott pláss í huga og hjörtum fólks víðsvegar um heim,“ 

segir Rúna.

„Þá vonumst við einnig til að við getum gert þetta þannig að aðrir sjái að það þarf ekki að gera alla hluti eins og maður hefur alltaf gert þá. Það er alveg hægt að fara út úr boxinu, leyfa sér að lifa lífinu meira út frá því sem gefur manni lífsgleði og tilgang og minna af því sem að við erum kannski búin að telja okkur trú um að við getum ekki gert, af því að við erum á einhverjum aldri, eða ekki í einhverju fanta formi,” bætir hún svo við.

„Munið; Vandamál er ekki vandamál fyrr en við ákveðum að gera það að vandamáli, er þetta eitthvað vandamál?“ segja þessar hressu vinkonur að lokum. Kynningarmyndband þeirra fyrir ferðalagið má finna í spilaranum hér fyrir neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×