Lífið

Vildi sjá fyndnar, djarfar og áhugaverðar konur í aðalhlutverkum

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Ólöf Birna Torfadóttir notar mikið húmor í handritum sínum og kvikmyndin Hvernig á að vera klassa drusla er þar engin undantekning. Ylfa Marín Harðardóttir og Ásta Júlía Elíasdóttir fara með aðalhlutverk.
Ólöf Birna Torfadóttir notar mikið húmor í handritum sínum og kvikmyndin Hvernig á að vera klassa drusla er þar engin undantekning. Ylfa Marín Harðardóttir og Ásta Júlía Elíasdóttir fara með aðalhlutverk. Mynd/Klassa drusla

Leikstjórinn Ólöf Birna Torfadóttir frumsýnir þann 3. Apríl sína fyrstu kvikmynd í fullri lengd, gamanmyndina Hvernig á að vera klassa drusla. Myndin fjallar um vinkonupar sem fer að vinna á sveitabæ yfir sumarið og lenda í allskonar sprenghlægilegum ævintýrum.

Þegar leikstjórinn og handritshöfundurinn Ólöf Birna var lítil sveitastelpa var hún sjálf oft kölluð drusla vegna þess að fötin hennar voru rifin og skítug og hárið úfið. Þegar hún var eldri var orðið notað í neikvæðri merkingu til að lýsa klæðaburð eða hegðun á unglingsárum og segir Ólöf Birna að þetta hafi einnig þó nokkuð oft verið notað til að lýsa bílunum hennar.

„Ég er stolt drusla í dag. Í langan tíma var þetta orð notað í neikvæðri merkingu gagnvart mér eða eignum mínum en svo komst ég að því að það sem var verið að dæma mann fyrir er bara þegar fólk er mannlegt. Það blundar lítil drusla inni í okkur öllum. Augnablikið sem þú ferð út í sjoppu á náttbuxunum til að kaupa mat, eða þegar þú hefur tíma til að þrífa eða gera eitthvað uppbyggilegt en kýst að horfa á Netflix og „tjilla“ í staðinn. Við eigum öll svona augnablik, þar sem við bara nennum ekki lífinu og stillum á „fuck mode.““

Steinunn Ólína er kostuleg sem bóndinn Bjarney í myndinni.Mynd/Klassa drusla

Skipti það Ólöfu Birnu miklu máli að tileinka sér orðið drusla sem hefur fylgt henni í gegnum árin og vinna úr því á skemmtilegan hátt í fyrstu bíómyndinni sinni.

„Myndin fjallar um vinkonuparið Kareni og Tönju. Karen, þrælvön sveitapía, grípur Tönju, borgarbarnið, með sér uppí sveit yfir sumarið til að vinna á búgarði. Það rennur ekki vottur af sveitablóði í Tönju og í þokkabót hefur hún fengið nóg af því að vera hlátursefni annarra og fær þar af leiðandi villandi kennslu Karenar um hvernig á að vera betri, stærri og sterkari útgáfa af sjálfri sér eða Klassa drusla,“ segir Ólöf Birna í samtali við Vísi.

Ylfa Marín og Ásta Júlía fara með aðalhlutverk, báðar í fyrsta skipti í kvikmynd í fullri lengd.Mynd/Klassa drusla

Endar eins og veggfóður

„Við heyrum að fólk er spennt að sjá, og margir hafa hreint út sagt bara „Loksins. Eitthvað ferskt í bíó. Stiklan hefur verið að fá gríðarlega jákvæðar viðtökur,“ segir Ólöf Birna. Með aðalhlutverk fara þær Ásta Júlía Elíasdóttir og Ylfa Marín Haraldsdóttir. Aðrir leikarar í myndinni eru Rúnar Vilberg Hjaltason, Konni Gotta, Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, Þorsteinn Bachmann, Ólafía Hrönn Jónsdóttir og Ólafur Elías Harðarson.

„Hugmyndin kviknaði sumarið 2015 og svolítið út frá sjálfri mér. Conceptið er hvernig þú óskar þér að vera vs. hvernig þú endar á að vera. Sem dæmi að þú ert á leið í partí eða hitting og ímyndar þér að þú ætlar að vera frökk og áberandi skemmtileg en endar á að vera eins og veggfóður allan tímann.“

Ólöf Birna reyndi að taka upp um kvöldin og um helgar svo teymið gæti unnið í öðrum verkefnum samhliða gerð myndarinnar.Mynd/Klassa drusla

Klassa drusla er fyrsta kvikmynd Ólafar Birnu í fullri lengd en mjög líklega ekki sú síðasta. Áður hefur Ólöf vakið athygli fyrir skemmtilega hnyttinn kvikmyndastíl í stuttmyndum sínum eins og Síðasta Sumar og Millenium Lausnir.

„Tökurnar fóru að mestu fram í Hvalfjarðarsveit, þá inni í Hvalfirði, í Svínadal og í Melasveit. Svo er örlítið tekið upp á Akranesi og ögn í bænum. Við tókum upp yfir töluvert langt tímabil, alveg frá maí og fram í september. En í stuttum hollum í einu. Það var gert bæði út af söguþræðinum þar sem innri sagan gerist frá sauðburði til smölunar en líka af því við vorum að vinna „low budget“ verkefni og vildum því reyna að miða á helgar og frídaga svo fólk væri ekki að missa úr almennri vinnu á meðan.“

Hún segir að á margan hátt hafi þetta ekki verið alveg gjörólíkt gerð stuttmyndar.

„Að vissu leyti út af því hvernig við tókum þetta upp var þetta svolítið eins og taka upp nokkuð margar stuttmyndir yfir sumartímann. En í heildina er þetta auðvitað töluvert meiri vinna yfir lengra tímabil. Inn í það kemur líka til dæmis hár og útlit leikara, að passa upp á að það sem var tekið upp í maí passi við það sem tekið er upp í september. Að taka upp stuttmynd er oft fjórir til sjö dagar en þetta voru 26 dagar í heildina.“

Ylfa Marín, Ásta Júlía og Steinunn Ólína í tökum.Mynd/Klassa drusla

Smeyk við að byrja

Að gera bíómynd í fullri lengd er langt og strangt ferli, en það sem stóð upp úr hjá Ólöfu Birnu var tökurnar sjálfar og svo hópurinn sem kom að myndinni.

„Við vorum um 36 manns í heildina sem mættum alla daga og úr verður náttúrlega ótrúleg vinátta. Það var mjög jafnt kynjahlutfall á setti bæði í „crewi“ og leikarahóp. Það fannst mér virkilega skemmtilegt þar sem maður er ekki endilega vanur því. En móralinn var svo góður, mikið hlegið og grínast. Þau gerðu þetta svo æðislega upplifun. Alveg 100 prósent besta teymi í heimi.“

Hún viðurkennir að það sem hafi komið mest á óvart í þessu ferli, hafi verið hvað allt gekk ótrúlega vel.

„Auðvitað er mikil vinna að baki en af því að allir sem komu að voru bara svo tilbúnir að vinna sína vinnu vel að þetta gekk bara eins og vel smurð dráttarvél. Ég var smeyk við að byrja þetta og var búin að undirbúa mig að þurfa að grípa boltann hingað og þangað, sérstaklega þar sem við erum að tala um „low budget“ verkefni. En svo var ég með frábæran framleiðanda, Óskar Long og dásamlegt teymi sem höfðu öll svo mikla ástríðu fyrir þessari mynd og trúa svo á að henni muni ganga vel.“

Fyrsta stiklan úr Hvernig á að vera klassa drusla

Þá gerist eitthvað stórkostlegt eða hræðilegt

Ólöf Birna segir að karakterinn Karen sé dugleg, frökk rokkara sveitapía með engan „filter“ og er henni meira sama um álit annarra eða tilfinningar annarra yfir höfuð. Tanja er aftur á móti svolítið hörundssár, vandræðaleg og virkar pínu inni í sér, ofhugsar hlutina og flækir þá fyrir sér sjálf.

„Ég hef leikstýrt áður henni Ástu Júlíu sem leikur Kareni. Mér finnst alltaf gaman að sjá hana leika, hún verður svo lifandi, orkumikil og oftast svolítið langt frá sjálfri sér. Hún er frábær leikkona, rosalega hlýhjörtuð í alvörunni og má hvergi aumt sjá, hugsa að það hafi verið mesta áskorunin fyrir hana, að leika Kareni sem er oft svo köld og hörð. Ylfa Marín sem leikur Tönju, er ótrúlega skemmtilegt að leikstýra og vinna með. Hún er rosa opin og sömuleiðis góðhjörtuð, æðisleg manneskja. Yndislegt að leikstýra henni, hún er svo frábær í kómískri tímasetningu og hefur svo góðan skilning á kómíkinni.“

Ólöf Birna og Ásta Júlía á tökustaðMynd/Klassa drusla

Leikkonurnar Ylfa og Ásta hafa verið bestu vinkonur í mörg ár.

„Þær hafa líka sett upp nokkra söngleiki í Garðaskóla yfir árin og eru duglegar að koma sér á framfæri. Það er þvílíkur heiður fyrir mig að Klassa drusla sé fyrsta myndin sem þær leika aðalhlutverk í og mig stórlega grunar að hún verið ekki sú síðasta.“

Ólöf Birna tengir sjálf við báðar persónurnar sem hún skapaði fyrir þessa kvikmynd.

„Það er svolítið af þeim báðum sem blundar í mér. Kannski Tanja svona í daglegu lífi, ég á það til að vera feimin og vandræðaleg en upp á síðkastið og sérstaklega í gegnum allt þetta ferli hefur Karen byrjað að láta heyra meira í sér. En það er þannig að ef ég dett í Kareni þá gerist annað hvort eitthvað stórkostlegt eða eitthvað hræðilegt sem ég þarf að biðjast afsökunar á seinna meir.“

Ólafía Hrönn Jónsdóttir og Ólafur Elías Harðarson fara með hlutverk í myndinni.Mynd/Klassa drusla

Heltók heilann í mörg ár

Það sem einkennir handrið Ólafar Birnu er að hún notar húmor mikið.

„Húmor er rosalega öflugt verkfæri ef rétt er með farið. Ef þú hefur einhver skilaboð til áhorfandans finnst mér persónulega að þau skili sér betur í gegnum húmor frekar en alvarleika eða drama. En grín geirinn finnst mér skemmtilegast að leika mér með. Það getur verið mjög erfitt og persónulegt líka, af því hvað ef fólki bara finnst þú ekkert fyndin. En ég elska að gera grín á mörkunum og sjá hvort ég komist upp með það.“

Hún segir að Klassa Drusla sé algjört draumaverkefni og klárlega í uppáhaldi af öllu því sem hún hefur gert eftir útskrift.

„Sú saga er búin að hertaka heilann minn síðustu fimm árin. Ég hef beðið lengi eftir að sjá svona mynd í bíó, þar sem konur eru í aðalhlutverkum og þær eru fyndnar, djarfar og áhugaverðar.“

Einnig þykir henni mjög vænt um stuttmyndina Klofin, sem er grínhryllingsmynd um konu með þrjá persónuleika.

„Ásta Júlía lék aðalhlutverkið þar, fyrsta myndin sem við unnum saman í. Margir sem unnu að þeirri mynd var fólk sem ég var að vinna með í fyrsta skiptið sem tók svo líka þátt í klassa druslu. Til dæmis Sunna sminka, Bríet sem sá um „load og sync“ á setti og fleiri. Þykir vænt um Klofin af því það var fyrsta sjálfstæða verkefnið sem ég gerði eftir kvikmyndaskólann.“

Ylfa Marín við tökur síðasta sumar.Mynd/Klassa drusla

Game of Thrones rosaleg upplifun

Ólöf Birna framleiðir myndina undir eigin fyrirtæki, MyrkvaMyndir, en nafnið tengist áhuga hennar á draugum.

„Við vorum nokkur úr kvikmyndaskólanum sem vildum halda áfram að gera stuttmyndir og félagið varð fyrst til í kringum það. Aðallega til að koma okkur á framfæri. Svo þegar Klassa drusla fór að verða meira alvöru þá stofnuðum við, ég og Óskar Long framleiðandi, fyrirtæki í kringum myndina sem varð MyrkvaMyndir. Þegar MyrkvaMyndir var fyrst bara félag þá langaði okkur að gera raunveruleika heimildaþætti um drauga á Íslandi, þess vegna var nafnið svona dark en svo gerðum við nokkrar stuttmyndir undir nafninu og það festist bara við.“

Ólöf Birna hefur unnið að mörgum skemmtilegum verkefnum í tengslum við þátta- og kvikmyndagerð. Til dæmis var hún svokallaður „office runner“ fyrir Game of Thrones þegar tökur fóru fram hér á landi.

„Ég var sem sagt á skrifstofunni í Reykjavík meðan tökur voru út á landi, þá sá ég um að redda, kaupa hluti og koma þeim út á land til þeirra. Og skutla fólki upp á flugvöll eða sækja það. Ég fór ekki nema einn dag á settið sjálft en það var rosaleg upplifun. Minnir að það hafi verið um 100 manns erlendis frá og 100 manns hérlendis sem komu að þessum tökum. Þetta er allt annað en nokkuð annað sett sem ég hef gengið inn á.“

Þorsteinn Bachmann og Ólöf Birna. Þorstein leikur Gunnþór í kvikmyndinniMynd/Klassa drusla

Ólöf Birna er með nokkur handrit í vinnslu í augnablikinu, þar af tvær bíómyndir í fullri lengd.

„En svo er ég orðin rosalega hrifin af þáttagerð. Ég og Lovísa Lára Halldórsdóttir, handritshöfundur, erum að vinna að nokkrum þáttahandritum. Ein þáttaröðin er að byrja í framleiðslu, gaman þáttaröð, fjallar um fullorðin systkini sem neyðast til að sjá um sig sjálf í fyrsta sinn eftir að foreldrarnir henda þeim út. Svo erum við með nokkrar hugmyndir enn á þróunarstigi. Til dæmis, grín hrylling um saumaklúbb eldri kvenna, áhugavert tímaflakk gegnum aldirnar á Íslandi og unglinga drauga drama.“


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.