Innlent

Ný skilgreining á tveggja metra reglunni tekur gildi á mánudag

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Beðið í röð með tvo metra á milli fyrir utan Elko í samkomubanninu í apríl.
Beðið í röð með tvo metra á milli fyrir utan Elko í samkomubanninu í apríl. Vísir/Vilhelm

Með nýrri auglýsingu Svandísar Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra, um takmörkun á samkomum vegna kórónuveirufaraldursins verður framkvæmd hinnar svokölluðu tveggja metra reglu breytt nokkuð.

Að því er segir í tilkynningu á vef stjórnarráðsins verður horft til þess að vernda þá sem eru viðkvæmir með því að skapa þeim sem það kjósa aðstæður svo hægt sé að viðhalda tveggja metra fjarlægðarreglu.

Þannig verði til að mynda á veitingastöðum, í leikhúsum og bíósölum boðið upp á að minnsta nokkur sæti sem geri þetta kleift.

Auglýsing ráðherra, og þar með þessi breyting á skilgreiningu tveggja metra reglunnar, tekur gildi næstkomandi mánudag en í minnisblaði Þórólfs Guðnasonar, sóttvarnalæknis, til ráðherra segir eftirfarandi um nýja skilgreiningu á tveggja metra reglunni:

Hugmyndin er að sett verði regla sem er svipuð og regla er varðar aðgengi fatlaðs fólks að ýmissi þjónustu, þ.e. að gert sé ráð fyrir að einstaklingar, sérstaklega viðkvæmir einstaklingar, þurfi meira pláss eða aðrir og að einnig geti reglan verið val fólks. Þannig má fólk sitja eða standa þétt en bjóða þarf þeim sem það vilja að halda tveggja metra fjarlægð.

Allir einstaklingar eru hvattir til að viðhalda tveggja metra fjarlægðarreglu í samskiptum við aðra eftir því sem aðstæður leyfa.

Í almenningsrýmum þar sem gert er ráð fyrir að almenningur eigi aðgengi að, hvort sem er án skilyrða eða að uppfylltum skilyrðum, s.s. greiðslu aðgangsgjalds eða vegna vinnusambands, skal leitast viðað bjóða einstaklingum að halda 2jametra fjarlægð frá öðrum eins og kostur er. Þar sem veitt er lögbundin þjónusta eða almenningur á ekki kost á öðru en mæta skal vera unnt að tryggja þeim sem það kjósa að halda 2ja metra fjarlægð frá öðrum. Undir almenningsrými falla m.a.:

Verslanir

Allir flokkar veitingastaða

Sundlaugar og baðstaðir

Líkamsræktarstöðvar

Íþróttamannvirki

Heilbrigðisstofnanir eftir því sem við á

Móttaka stofnana og fyrirtækja

Vinnustaðir sem eðli starfseminnar vegna krefjast ekki mikillar nálægðar

Almenningssamgöngur

Leikhús, bíósalir, tónleikasalir o.þ.h.

Húsnæði skóla og annarra mennta-og menningarstofnana

Í 1. mgr. felst m.a. að verslanir gæti að því að í biðröðum sé unnt að gæta að umræddri fjarlægð, að vinnurými séu skipulögð þannig að unnt að sé að halda fjarlægð, að veitingastaðir og sambærileg starfsemi geri ráð fyrir að unnt sé að bjóða nokkrum viðskiptavinum að sitja í umræddri fjarlægð frá öðrum. Leikhús og bíósalir bjóði upp á a.m.k. nokkur sæti sem eru í umræddri fjarlægð.

Aðrar breytingar sem taka gildi á mánudaginn eru að allt að 200 manns verður heimilt að koma saman í stað 50 eins og nú er.

Heimilt verður að opna líkamsræktarstöðvar með sömu takmörkunum og gilda um sund- og baðstaði, það er takmörkun á fjölda gesta sem miðast við að þeir séu aldrei fleiri en nemur helmingi af leyfilegum hámarksfjölda samkvæmt starfsleyfi.

Öllum veitingastöðum, þar með töldum börum og skemmtistöðum sem og spilasölum, verður heimilt að hafa opið til klukkan 23 á á kvöldin.

Þá er hvatt til þess að viðhalda tveggja metra reglunni eftir því sem kostur er og áfram verða gerðar sömu kröfur um sótthreinsun og þrif almenningsrýma og hingað til.

Auglýsing ráðherra er í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis um tilslakanir á samkomubanninu en Svandís kynnti ákvörðun sína um breytingarnar á ríkisstjórnarfundi í morgun.

Fréttin hefur verið uppfærð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×