Fótbolti

Stefna á að klára tímabilið 20. ágúst

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Birkir Bjarnason leikur með Brescia í ítölsku úrvalsdeildinni.
Birkir Bjarnason leikur með Brescia í ítölsku úrvalsdeildinni. EPA-EFE/SIMONE VENEZIA

Ítalska knattspyrnusambandið, FIGC, gaf það út seint í gærkvöld að leiktímabilinu þar í landi verði lokið þann 20. ágúst. Þá eru aðeins tólf dagar í að næsta tímabil, 2020/2021, eigi að fara af stað en fyrsti leikur þeirrar leiktíðar er enn skráður þann 1. september næstkomandi.

Ítalska deildarkeppnin hefur líkt og nær allar aðrar deildarkeppnir Evrópu, nema í Hvíta-Rússlandi, verið á ís síðan um miðjan mars þegar hlé var gert á keppni vegna kórónufaraldursins. Nú hefur FIGC gefið það út að leikið verði til þrautar í efstu þremur deildunum í karlaflokki.

Enn er tólf umferðum ólokið í efstu deild, Serie A, þar sem Juventus trónir sem fyrr á toppnum og stefnir á sinn níunda meistaratitil í röð. Lazio, sem hefu rekki orðið meistari frá því um aldamótin, er hins vegar aðeins stigi á eftir í öðru sæti deildarinnar.

Liðin mættu aftur til æfinga á mánudag en þá hafði verið útgöngubann í allt að níu vikur. Stefnt er að því að hefja leik að nýju þann 13. júní.

Líkt og í Þýskalandi verður leikið fyrir luktum dyrum en Ítalía hefur komið einkar illa út úr kórónufaraldrinum. Alls hafa 230 þúsund greinst með veiruna og ríflega 30 þúsund látist sökum hennar. Þá eru yfir 60 þúsund virk smit í landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×