Lífið

Halla og Már héldu eigið galakvöld undir lok sóttkvíarinnar

Stefán Árni Pálsson skrifar
Hjónin litu ekki á verkefni sem kvöð og gerðu það besta úr erfiðum aðstæðum.
Hjónin litu ekki á verkefni sem kvöð og gerðu það besta úr erfiðum aðstæðum. mynd/guðbjörg lára

„Við ákváðum bara að hafa síðasta kvöldið eins og við værum að fara á ball,“ segir Halla Gunnarsdóttir, kennari, sem kláraði sóttkví með eiginmanni sínum Má Erlingssyni á laugardagskvöldið. Hjónin tóku þá ákvörðun að halda upp á síðasta kvöldið heima með galakvöldi og klæddu þau sig sparilega upp eins og dóttir þeirra Guðbjörg Lára Másdóttir greindi skemmtilega frá á Twitter.

„Við matreiddum góðan mat sem við pöntuðum á Heimkaup.is og vorum bara með glans og glamúrkvöld þar sem við klæddum okkur fallega upp. Það var alltaf okkar nálgun á þessu verkefni að þetta væri ekki einhver þraut og við værum bara heppinn að vera á okkar heimili í þessu ferli, í staðinn fyrir að vera föst í Víetnam eða einhversstaðar erlendis.“

Þau hjónin voru á skíðaferðalagi í Cortina á Ítalíu og komu heim fyrir rúmlega tveimur vikum. Það tekur um þrjár klukkustundir að aka frá Cortina yfir til Verona þaðan sem þau flugu heim. Halla og Már voru í fjórtán manna hópi í fríi.

Komu miklu í verk

„Þetta var nú bara nokkuð góð tilfinning að klára sóttkví en maður á samt eftir að sakna þess pínu. Þetta var bara frekar notalegt og mikill friður heima. Maðurinn minn er í erfiðri vinnu og þar er mikið áreiti og hann gat meira einbeitt sér heima og unnið í rólegheitunum. Ég er kennari og þetta voru í raun eins og fjórtán undurbúningsdagar og því gat ég komið miklu í verk og undirbúið næstu vikur í kennslu.“

Halla segist hafa þurft að fara í Kringluna stuttu eftir að hún slapp úr sóttkví.

„Maður eru orðin svo taugaveiklaður í kringum þetta allt að ég bara nánast hélt niðri í mér andanum þegar ég gekk um húsið. Það er kannski eðlilegt að fólk sér hrætt, þar sem þetta er greinilega djöfulleg veira,“ segir Halla en heilt yfir eru þau hjón nokkuð sátt við viðbrögð heilbrigðiskerfisins þrátt fyrir nokkra byrjunarerfileika.

„Við vorum ekki sett í sóttkví um leið og við lentum og við gerðum það í raun sjálf. Við vissum ekkert að þetta væri bannsvæði og það tók töluverðan tíma að tilkynna okkur það. Ég hlakkaði mjög mikið til að komast í vinnuna en var nokkuð stressuð að fólk yrði hreinlega hrætt við mig.“


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×