Enski boltinn

Grindavík gerir Liverpool freistandi tilboð

Sindri Sverrisson skrifar
Er þetta ekki ágæt hugmynd? Liverpool byrjar vonandi brátt liðsæfingar að nýju og hvar væri betra að gera það en í Grindavík?
Er þetta ekki ágæt hugmynd? Liverpool byrjar vonandi brátt liðsæfingar að nýju og hvar væri betra að gera það en í Grindavík? VÍSIR/GETTY

Vonir standa til þess að hægt verði að hefja keppni í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta að nýju þann 12. júní, eftir langt hlé vegna kórónuveirufaraldursins. Grindvíkingar hafa boðið Liverpool aðstoð við undirbúninginn.

Ekki er enn ljóst hvenær ensku liðin geta hafið hefðbundnar liðsæfingar að nýju en hefðbundnar æfingar meistaraflokka á Íslandi ættu að verða leyfilegar 25. maí. Samkvæmt frétt Fréttablaðsins á fimmtudag hafa einhverjar óformlegar þreifingar átt sér stað um komu enskra úrvalsdeildarliða til æfinga hér á landi, en haft var eftir Guðna Bergssyni formanni KSÍ á mbl.is í kjölfarið að slíkt væri ólíklegt.

Vilji Liverpool-menn, sem eru langefstir í ensku úrvalsdeildinni og afar nærri því að tryggja sér Englandsmeistaratitilinn, koma til Íslands gætu þeir horft til Suðurnesja eftir tilboð frá Grindvíkingum í gegnum Twitter. Þar benda Grindvíkingar á að þeir séu með þrjá fótboltavelli í boði og svo sé hið fimm stjörnu hótel Bláa lónsins í næsta nágrenni. Það verður þó vissulega að teljast ólíklegt að Salah, Mané og félagar mæti til Grindavíkur en hafa ber í huga að um fordæmalausa tíma er að ræða.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.