Innlent

Fimm útgerðir falla frá málsókn um skaðabætur

Kjartan Kjartansson skrifar
Loðnuvinnslan var á meðal sjávarútvegsfyrirtækja sem áttu aðild að málsókninni.
Loðnuvinnslan var á meðal sjávarútvegsfyrirtækja sem áttu aðild að málsókninni. Vísir/Vilhelm

Sjávarútvegsfyrirtækin Eskja, Gjögur, Ísfélag Vestmannaeyja, Loðnuvinnslan og Skinney-Þinganes hafa ákveðið að falla frá málsókn á hendur íslenska ríkinu vegna meints fjártjóns við úthlutum aflaheimilda í makríl fyrr á þessum áratugi.

Í tilkynningu frá félögunum fimm vísa þau í áhrif kórónuveiruheimsfaraldursins á ríkissjóð og íslenskt samfélag um ákvörðun sína um að falla frá málsókninni.

„Víðtæk samstaða og baráttuhugur hafa einkennt samfélagið síðustu vikur og mánuði. Nú verða allir að leggja lóð á vogarskálar. Af þessum sökum hafa undirrituð fimm sjávarútvegsfyrirtæki tekið þá ákvörðun að falla frá kröfum á hendur íslenska ríkinu vegna ágreinings um úthlutun aflaheimilda í makríl,“ segir í tilkynningunni.

Huginn ehf. og Vinnslustöðin hf. eiga enn aðild að málsókninni á hendur ríkisins þar sem útgerðirnar kráfust 10,2 milljarða króna bóta. Sigurgeir B. Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar, sagði að málið verði rætt á stjórnarfundi fyrirtækisins á morgun en vildi að öðru leyti ekki tjá sig í samtali við Vísi. Ekki náðist strax í Pál Guðmundsson, framkvæmdastjóra Hugins.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, skoraði á útgerðirnar að draga kröfur sínar til baka á Alþingi í gær.

Segja fjártjónið ekki aðalatriði í málinu

Bótakrafa útgerðanna kom fram í kjölfar tveggja Hæstaréttardóma í desember 2018 þar sem bótaskylda ríkisins var viðurkennd vegna fjártjóns sem Ísfélagið og Huginn ehf. töldu sig hafa orðið fyrir með því að fiskiskip þeirra hefðu á grundvelli reglugerða verið úthlutað minni aflaheimildum í makríl árin 2011 til 2014 en skylt hafi verið samkvæmt lögum.

Sjö útgerðarfélög höfðuðu mál á hendur íslenska ríkinu til heimtu skaðabóta vegna tjóns sem þau töldu sig hafa orðið fyrir vegna rangrar úthlutunar makrílkvóta frá 2011 til 2018. Kröfðust þau 10,2 milljarða króna úr ríkissjóði.

Í tilkynningu útgerðanna fimm í dag segir þó að enn hafi ekki dæmt um hvert fjárhagslegt tjón þeirra var og hafna þær því að það hafi verið grundvallarþáttur í málinu.

„Það sem mest er um vert, er að settum lögum sé fylgt og ábyrgð fylgi því þegar út af bregður. Það á við um fyrirtæki, einstaklinga og stjórnvöld. Þetta er einn grundvallarþáttur réttarríkis,“ segja félögin fimm.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Segir hljóð og mynd ekki fara saman hjá út­gerðunum

Formaður Viðreisnar segir að hljóð og mynd ekki fara saman hjá útgerðarfélögum í landinu þar sem þau krefjast hárra skaðabóta vegna ólöglegrar úthlutunar á heimildum til makrílveiða á sama tíma og þær kvarta yfir háum veiðigjöldum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.