Innlent

Bjarni segir að útgerðin sjálf muni borga reikninginn vegna makrílmálsins

Jakob Bjarnar skrifar
Bjarni Benediktsson gaf útgerðinni engan afslátt og tók þar með af öll tvímæli um að málið kynni að vera ríkisstjórninni erfitt.
Bjarni Benediktsson gaf útgerðinni engan afslátt og tók þar með af öll tvímæli um að málið kynni að vera ríkisstjórninni erfitt. visir/vilhelm

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kom í sinni ræðu á þingi um áhrif Covid-19 faraldursins og viðbrögð stjórnvalda inn á markrílmálið svokallað. Það snýst um kröfu nokkurra útgerða á hendur ríkinu sem nemur ríflega 10 milljörðum króna vegna þess að þær útgerðir fengu ekki eins miklum kvóta úthlutað og þær töldu sig eiga rétt á.

„Togstreita um aflaheimildir á milli útgerða verður ekki leyst á kostnað skattgreiðenda. Það verður ekki þannig,“ sagði Bjarni. En, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hafði áður skorað á útgerðirnar að draga þessa kröfu sína til baka. Hafi einhver ætlað að ágreiningur væri uppi um málið innan ríkisstjórnarinnar, þá tók Bjarni af öll tvímæli um það.

„Nú höfum við tekið til varna í þessu svokallaða makrílmálinu. Við munum taka til fullra varna. Ég hef reyndar bara góðar væntingar um að við munum hafa sigur í því máli. En ef svo ólíklega vill til að það mál fari ríkinu í óhag þá er það einfalt mál í mínum huga að reikningurinn vegna þess verður ekki sendur á skattgreiðendur. Reikningurinn vegna þess verður þá að koma frá greininni. Það er bara svo einfalt.“

Ekki kom fram í máli Bjarna hvernig það yrði útfært fari svo að útgerðin hafi sigur í málinu, hvort það yrði þá með hækkun veiðigjalda í ófyrirsjáanlegri framtíð eða öðrum hætti.

Þar með liggur fyrir að veruleg samstaða ríkir á þingi; óánægja með framgöngu útgerðarmanna en Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar og fyrrverandi sjávarútvegsráðherra taldi hljóð og mynd ekki fara saman í þessari kröfugerð útgerðarinnar. Sem ýmsum, svo sem Kolbeini Óttarssyni Proppé þingmanni, þykir reyndar yfirgengileg og lýsa fáránlegri græðgi.


Tengdar fréttir

Segir hljóð og mynd ekki fara saman hjá út­gerðunum

Formaður Viðreisnar segir að hljóð og mynd ekki fara saman hjá útgerðarfélögum í landinu þar sem þau krefjast hárra skaðabóta vegna ólöglegrar úthlutunar á heimildum til makrílveiða á sama tíma og þær kvarta yfir háum veiðigjöldum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×