Innlent

Stal loki af setlaug en tæmdi laugina af ótta við frostskemmdir

Athugið að myndin er úr safni.
Athugið að myndin er úr safni.
Þeir eru misstillitsamir þjófarnir, en sumarhúsaeigandi í Þingvallasveit fékk að kynnast einum slíkum. Þannig var loki af rafmagnssetlaug stolið frá sumarbústað í landi Kárastaða í maí. Þjófurinn lét sig þó hafa það að tæma setlaugina, líklega af ótta við að laugin skemmdist vegna næturfrostsins. Þjófurinn stal einnig tröppum og útiljósi.

Lögreglan á Selfossi telur að þjófnaðurinn gæti hafa átt sér stað á tímabilinu 1. til 18. maí.

Svo segir í tilkynningu frá lögreglunni á Selfossi að frá því um miðjan apríl til miðjan maí síðastliðinn, hafi verið brotist inn í sumarbústað í landi Efra Sýrlæks í Flóa. Þaðan var stolið nýlegum Simenz ísskáp, hjónarúmi, búsáhöldum og karlmannsfatnaði. Þjófarnir brutu sér leið með því að spenna upp útihurð. Það er afar fáttítt að brotist sé inn í sumarbústaði í Flóanum, þó þar hafi eitt frægasta rán Íslandssögunnar átt sér stað, sjálft Kambsrán að því er greinir frá í tilkynningu lögreglunnar.

Gera má ráð fyrir að þjófarnir hafi verið á sæmilega stórum sendibíl.

Annað innbrot í sumarbústað var svo tilkynnt í síðustu viku. Það átti sér stað í landi Búrfells í Grímsnesi. Úr þeim bústað var stolið sjónvarpi, útvarpi, flakkara, myndbandstæki, kaffivél, búsáhöldum, hreindýraskinni, fatnaði, hjólbörum og ýmsu öðrum smærri munum. Innbrotið hefur átt sér stað á tímabilinu 2. maí til 16. maí síðastliðinn. Í þessu tilviki notaði þjófurinn haka til að spenna upp útihurð.

Hafi einhver upplýsingar um þessi innbrot er þeim sama bent á að hafa samband við lögregluna á Selfossi í síma: 480 1010.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×