Innlent

Úr­koma um mest allt landið á morgun

Atli Ísleifsson skrifar
Capture

Veðurstofan gerir ráð fyrir breytilegri og vestlægri átt í dag, þrír til átta metrar á sekúndu, með dálítilli vætu. Yfirleitt verður þó þurrt og bjart fyrir norðan og austan.

Í hugleiðingum veðurfræðings segir að þokkalega milt verði að deginum en þar sem fremur kalt loft sé yfir landinu frysti víða þar sem bjart er yfir. Hiti verður á bilinu tvö til tíu stig og svalast austantil.

„Á morgun verður vestanáttin ákveðnari, úrkoma um mest allt land, þó líklega ekki mikil og hitinn víða 5 til 10 stig yfir daginn. Á fimmtudag og dagana þar á eftir virðist sem norðanáttin ætli að stýra veðrinu með fremur köldu veðri fyrir norðan en þokkalega mildu syðra yfir daginn. Í lok helgar er svo að sjá að mildara loft úr suðri taki svo yfir dagana þar á eftir.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á miðvikudag: Vestan 5-10 m/s og lítilsháttar rigning eða skúrir, en þurrt að kalla SA- og A-lands. Hiti 3 til 11 stig, hlýjast á SA-landi.

Á fimmtudag: Vestlæg átt 3-8, rigning eða súld með köflum og hiti 5 til 10 stig, en þurrt NA-lands og hiti 0 til 5 stig þar. 

Á föstudag: Norðlæg eða breytileg átt, dálítil væta S til á landinu og stöku él nyrst, en annars úrkomulítið. Hiti 0 til 8 stig, mildast syðst.

Á laugardag: Norðan gola. Stöku él fyrir norðan og hiti 1 til 5 stig, en léttskýjað syðra og hiti að 10 stigum yfir daginn.

Á sunnudag og mánudag: Suðaustanátt, strekkingur og rigning á köflum S-lands, en annars hægari og þurrt. Hiti 5 til 10 stig, en svalara austantil.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.