Innlent

Sjö vitni að barsmíðunum

Sjö vitni eru að líkamsárás sem var í Öxnadal aðfaranótt fimmta ágúst. Sá sem grunaður er um árásina er talinn hafa barið annan mann með hafnarboltakylfu í höfuðið þannig að hann slasaðist alvarlega. Maðurinn var fyrir rúmri viku úrskurðaður í gæsluvarðhald sem átti að renna út í gær. Hann losnaði hins vegar úr gæsluvarðhaldinu á föstudaginn þar sem ekki var talin vera ástæða til að halda honum lengur. Sá grunaði og sá slasaði voru í bíl í Öxnadal ásamt tveimur öðrum. Þeir sem voru á staðnum þegar lögreglu bar að sögðu þann slasaða hafa fallið á veginn þegar hann fór út úr bílnum eftir rifrildi. Sá slasaði var fluttur á fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri þar sem kom í ljós að hann var með höfðukúpubrot og blæðingar inn á heila auk nefbrots og kinnbeinsbrots og var maðurinn til að byrja með á gjörgæsludeild. Misvísandi upplýsingar vitna leiddu til rannsóknar lögreglunnar á Akureyri og var maðurinn handtekinn í framhaldinu. Að sögn Daníels Snorrasonar, lögreglufulltrúa er nú beðið eftir áverkavottorði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×