Innlent

Krefst skýringa á orðum borgarstjóra um Framsókn

Óskar Bergsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, ítrekaði á borgarráðsfundi í dag spurningar sínar til Ólafs F. Magnússonar borgarstjóra varðandi ummæli borgarstjóra um Framsóknarflokkinn og meinta þjónkun hans við verktaka og auðmenn í borginni.

Ummæli lét borgarstjóri falla í kvöldfréttum Sjónvarps á mánudag í frétt um vanda miðborgarinnar. Orðrétt sagði borgarstjóri: „Það hafa orðið þau umskipti í borginni að í fyrsta skipti í langan tíma er sá flokkur sem lengst hefur gengið í þjónustu við verktaka og auðmenn, Framsóknarflokkurinn ekki í meirihluta í Reykjavík.

Og ég held að þess muni sjást stað í skipulagsmálunum og uppbyggingunni þar að við erum að gæta hagsmuna borgarbúa en ekki einhverra tiltekinna sérhagsmunahópa eða flokksmanna, eða verktaka eða annara sem (hafa) mikla umsýslu og fé undir höndum."

 

Óskar spurði borgarstjóra út í málið á borgarstjórnarfundi á þriðjudag en borgarstjóri svaraði ekki fyrirspurninni þegar hún var lögð fram. Hann lét hins vegar þau orð falla síðar á fundinum að ummælin beindust ekki að Óskari heldur Framsóknarflokknum.

Við það sætti Óskar sig ekki og krefst þess að borgarstjóri rökstyðji þær aðdróttanir sem í orðum hans liggi og leggi fram sannanir máli sínu til stuðnings.

„Það á ekki að líðast í borgarstjórn Reykjavíkur að flokkar jafnt sem borgarfulltrúar þurfi að sitja undir órökstuddum fullyrðingum um meinta spillingu og sviksemi við borgarbúa. Ég krefst rökstuðnings borgarstjóra og sannana fyrir þessum ummælum, eða hann dragi ummæli sín til baka og biðjist afsökunar," segir í tilkynningu Óskars til fjölmiðla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×