Innlent

Íslenskir karlar verða elstir karla í heiminum

Íslenskir karlar geta nú vænst þess að verða 79,4 ára gamlir og verða elstir karla í heiminum samkvæmt samantekt Hagstofunnar. Konur geta hins vegar vænst þess að verða 82,9 ára.

Þar segir enn fremur að á undanförnum áratugum hafi dregið nokkuð saman með kynjunum í meðalævilengd. Á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar var um sex ára munur á ævilengd karla og kvenna en er nú einungis 3,6 ár.

Svipaða þróun má greina annars staðar í Evrópu, einkum á Norðurlöndunum. Af Norðurlöndunum utan Íslands er þessi munur minnstur í Svíþjóð, 4,4 ár.

Hagstofan bendir á að lífslíkur karla hérlendis hafi þannig batnað meira en kvenna á undanförnum áratugum. Nú er svo komið að íslenskir karlar verða karla elstir í heiminum, 79,4 ára. Hið sama verður ekki sagt um konur. Lengi vel voru lífslíkur íslenskra kvenna hærri en annars staðar í heiminum en nú lifa konur nokkurra þjóða lengur en kynsystur þeirra á Íslandi. Þetta á einkum við um Japan, en meðalævilengd japanskra kvenna er nú 86 ár.

Árið 2007 dóu 1.942 einstaklingar með lögheimili á Íslandi, 1.002 karlar og 940 konur. Dánartíðni var 6,2 á hverja 1.000 íbúa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×