Innlent

Lítill hagur af Akranesi

Íbúarnir í hreppunum umhverfis Akranes, sem samþykktu sameiningu um helgina, hafa lítinn áhuga á sameiningu við Akranes. Hjördís Stefánsdóttir, lögfræðingur og íbúi í Hvalfjarðarstrandarhreppi, segir að ekki hafi verið vilji til sameiningar við Akranes innan sveitarfélaganna. „Árið 2002 fór fram skoðanakönnun þar sem viðhorf fólks til hinna ýmsu kosta var kannað og þar kom í ljós að það var mjög lítill vilji í þá áttina. Menn vildu leggja áherslu á innbyrðis sameiningu,“ segir hún. Hjördís segir að íbúarnir telji að nýja sveitarfélagið „hafi allar forsendur til að verða gott og öflugt sveitarfélag. Það mun hafa mjög sterka tekjustofna og litlar skuldir þannig að fólki finnst lítill ávinningur af sameiningu við Akranes. Nýja sveitarfélagið verður með mjög háar tekjur miðað við íbúafjölda. Fólk vill líka leggja áherslu á að þetta er sveitasamfélag.“ Í sameinuðu sveitarfélagi hreppanna fjögurra eru tveir sterkir vinnustaðir, Járnblendifélagið og Norðurál.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×