Fótbolti

Vonaðist eftir kraftaverki eða að þetta væri bara slæmur draumur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Florijana Ismaili, hér í treyju númer sautján,  lék 33 landsleiki fyrir Sviss.
Florijana Ismaili, hér í treyju númer sautján, lék 33 landsleiki fyrir Sviss. EPA/PETER SCHNEIDER
Lík knattspyrnukonunnar Florijana Ismaili fannst í Como-vatni á Ítalíu í gær eftir að hafa verið saknað síðan á laugardaginn.

Florijana Ismaili var svissnesk landsliðskona og fyrirliði kvennaliðs BSC Young Boys. Hún var aðeins 24 ára gömul.

Ismaili hafði stungið sér til sunds af báti á Como vatni en birtist aldrei aftur. Lík hennar fannst síðan loksins á 204 metra dýpi þremur dögum síðar.

Fólk innan knattspyrnuheimsins, bæði í Sviss og annars staðar, hafa minnst Florijönu eftir að fréttist af örlögum hennar.

„Ég er mjög leiður og í miklu áfalli. Það er erfitt að sætta sig við það að Flori sé farin frá okkur,“ sagði Nils Nielsen, þjálfari svissneska landsliðsins.

Florijana Ismaili lék 33 leiki með svissneska landsliðinu en fyrsti landsleikur hennar var árið 2014.

„Hún var alltaf brosandi og heillaði okkur með sínu glaðlega fasi. Hún var ein þeirra sem tók hverri áskorun og var sterk fyrirmynd. Ég get bara ímyndaði mér hversu erfitt þetta er fyrir þá sem þekktu Flori lengur og betur en ég. Hugur minn er hjá þeim á þessum erfiðu tímum,“ sagði Nielsen.

Xherdan Shaqiri, framherji Liverpool og svissneska landsliðsins, var líka einn af þeim sem tjáði sig um Florijönu og sagðist vera í miklu áfalli eins og sjá má hér fyrir neðan.

Lia Walti var liðsfélagi Florijönu Ismaili hjá svissneska landsliðinu en Walti spilar með Arsenal.

„Fram á síðustu stundu þá vonaðist ég eftir kraftaverki eða að þetta væri bara slæmur draumur. Þessar fréttir hafa mikil áhrif á mig og ég á erfitt með að finna réttu orðin. Ég vona bara að Flori hafi ekki þjáðst mikið,“ sagði Lia Walti.

Við erum öll ótrúlega sorgmædd og í miklu sjokki. Það er óhugsandi að Flori sé ekki lengur með okkur,“ sagði Lara Dickenmann sem spilaði líka með Florijönu Ismaili hjá svissneska landsliðinu.

Gianni Infantino, forseti FIFA, var líka einn þeirra sem tjáði sig um fráfall svissnesku landsliðskonunnar.

„Þetta er mjög sorgleg stund fyrir allan fótboltaheiminn og ekki síst þegar við erum samankomin á HM kvenna,“ skrifaði Gianni Infantino.


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.