Innlent

Ökumaður keyrði í gegnum öryggisgirðingu á Keflavíkurflugvelli

Eiður Þór Árnason skrifar
Mikill viðbúnaður er á svæðinu vegna komu Mike Pence varaforseta Bandaríkjanna til landsins næsta miðvikudag
Mikill viðbúnaður er á svæðinu vegna komu Mike Pence varaforseta Bandaríkjanna til landsins næsta miðvikudag Vísir/Vilhelm
Maður keyrði í gegnum öryggisgirðingu á Keflavíkurflugvelli á tíunda tímanum í kvöld og var fjölmennt lið lögreglu kallað út á staðinn. Samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni átti atvikið sér stað skammt frá inngangi að aðstöðu Landhelgisgæslunnar á svæðinu og var lögregla snögg á svæðið. Víkurfréttir greindu fyrst frá.

Mikill viðbúnaður er á svæðinu vegna komu Mike Pence varaforseta Bandaríkjanna til landsins næsta miðvikudag. Greint hefur verið frá því að Pence muni funda með Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra í húsi Landhelgisgæslunnar á Keflavíkurflugvelli að kvöldi miðvikudags.

Ökumaðurinn var samvinnuþýður samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurnesjum og er málið rannsakað sem ölvunarakstur. Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, sagði í samtali við Vísi að viðbúnaður verði ekki aukinn á svæðinu í kjölfar atviksins.

Bæði lögreglan og Landhelgisgæslan segja engan vafa á því að engin tengsl séu á séu á milli atviksins sem um ræðir og heimsóknar Mike Pence til landsins. Bráðabirgðaviðgerð er þegar hafin á girðingunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×