Innlent

Ráðgjafi um upplýsingarétt tekur til starfa

Sveinn Arnarsson skrifar
Ráðgjafinn hefur aðsetur í forsætisráðuneytinu.
Ráðgjafinn hefur aðsetur í forsætisráðuneytinu. Fréttablaðið/Stefán
Ráðgjafi um upplýsingarétt almennings mun taka til starfa 1. september næstkomandi. Er þessi ráðstöfun í samræmi við breytingar sem gerðar voru á upplýsingalögum í júnímánuði síðastliðnum.

Oddur Þorri Viðarsson, lögfræðingur á skrifstofu löggjafarmála í forsætisráðuneytinu, mun sinna starfinu en hann hefur jafnframt verið ritari úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Við því starfi tekur Ásthildur Valtýsdóttir lögfræðingur sem ráðin hefur verið til ráðuneytisins.

Ráðgjafi um upplýsingarétt almennings mun hafa starfsaðstöðu í forsætisráðuneytinu en vera í ráðgjöf sinni óháður fyrirmælum frá ráðherra og öðrum. Meðal verkefna ráðgjafans eru leiðbeiningar til almennings, félagasamtaka, fjölmiðla, lögaðila og annarra sem leita eftir aðgangi að gögnum.

Þá mun ráðgjafinn fylgjast með upplýsingagjöf opinberra aðila til almennings og gera tillögur til úrbóta þar sem við á. Fram kemur í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu að markmið aðgerðanna sé að styrkja upplýsingarétt almennings og úrskurðarnefnd um upplýsingamál. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×