Enski boltinn

Carlo Ancelotti nýr stjóri Everton

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ancelotti á hliðarlínunni er hann stjórnaði Napoli.
Ancelotti á hliðarlínunni er hann stjórnaði Napoli. Vísir/Getty

Ítalski þjálfarinn Carlo Ancelotti mætir á úrvalsdeildarleik Everton og Arsenal nú í hádeginu en hann skrifaði undir samning við Everton nú rétt í þessu.

Ancelotti var á dögunum rekinn eftir slakt gengi Napoli í ítölsku úrvalsdeildinni. Hann var þó ekki lengi að finna sér nýtt félag en Ancelotti skrifaði undir hjá Everton er hann mætti á Goodison Park fyrir leik liðsins gegn Arsenal.

Duncan Ferguson hefur stýrt Everton síðan félagið lét Marco Silva taka pokann sinn. Liðið hefur náð í fjögur stig í þeim tveimur leikjum sem Ferguson hefur verið á hliðarlínunni. Everton lagði Chelsea 3-1 á heimavelli áður en liðið náði 1-1 jafntefli gegn Manchester United á Old Trafford. Í hádeginu mætir svo Arsenal og Goodison Park þar sem Ancelotti verður í stúkunni.

Fyrrum miðjumaðurinn Ancelotti hefur stýrt nokkrum stærstu liðum heims og ljóst að Everton gæti varla fundið hæfari mann í starfið. Þá ætti Gylfi Þór Sigurðsson að njóta góðs af ráðningu Ancelotti en sá ítalski er oftar en ekki með mjög góðar „tíur“ í sínum liðum.

Ancelotti hefur stýrt Reggiana, Parma, Juventus, AC Milan, Chelsea, Paris Saint-Germain, Real Madrid, Bayern Munich og Napoli á þjálfaraferli sínum sem hófst árið 1995. Þá hefur hann unnið ítölsu, ensku, frönsku og þýsku úrvalsdeildina ásamt því að hafa unnið Meistaradeild Evrópu þrívegis. Tvisvar með AC Milan og einu sinni með Real Madrid.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×