Innlent

Vill banna einnota plastvörur

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar

Umhverfisráðherra vill banna plastvörur eins og einnota bómullarpinnar úr plasti, hnífapör, diska og sogrör. Þá vill hann einnig gera fólki skylt að flokka sorp.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið kynnti í gær í samráðsgátt stjórnvalda drög að breytingum á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir og breytingar á lögum um úrgangsmál.

„Hvoru tveggja er hluti af því að innleiða hringrásarhagkerfi hér á Íslandi og það felst í því að reyna að draga úr sóun eins og hægt er og nýta auðlindir betur. Jafnframt að þegar að úrgangur verður til að við reynum að nota hann sem efnivið í vöru aftur,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra.

Verði frumvörpin að lögum verður bannað að setja algengar einnota vörur úr plasti á markað. „Þetta eru svona þessar algengustu plastvörur sem að eru að finnast á ströndum, niðri við sjó, sem eru að berast út í umhverfið og hafa þannig neikvæð áhrif. Eins og plaströr, diskar og hnífapör, eyrnapinnar og ýmislegt svona úr frauðplasti. Þannig að það er eitt markmiðið að hreinlega banna markaðssetningu þessara vara og síðan að setja gjald á ákveðnar aðrar einnota plastvörur,“ segir Guðmundur Ingi.

Hitt frumvarp ráðherrans fjallar um breytingar á lögum um úrgangsmál. „Þar sem að við erum meðal annars að leggja til að bæði heimilin og fyrirtækin í landinu verði í rauninni skyldug til þess að flokka sorp. Mér finnst svona kominn tími til þess að við gerum þetta öll núna þegar árið 2020 er að renna í garð,“ segir Guðmundur Ingi.

Ráðherrann vonast til þess að mæla fyrir báðum frumvörpunum á Alþingi í febrúar og að þau verði orðin að lögum í sumar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×